Viðgerðarmaðurinn
1994
Anna Líndal 1957-
Með ljóðrænum kvennapólitískum verkum sem Anna Líndal vann á árunum 1994-2000 afhjúpar hún viðteknar hugmyndir um stöðu konunnar í samfélaginu. Hún vinnur jöfnum hönum með stök verk og innsetningar sem hafa samfélagslega vísun, stundum ádeilu eða vangaveltur um málefni líðandi stundar. Hún byggir á rannsóknum á viðfangsefninu þar sem efnisnotkunin er í ætt við DADA og Fluxus, tilbúnir hlutir settir í nýtt samhengi þar sem hvergi er hvikað frá lögmálum myndlistarinnar. Það þarf mikla þekkingu til að spinna þráð og nota hann, þráðurinn er þannig samofinn menningunni. Marglit tvinnakeflin sem hvert og eitt hanga í mislöngum þræði á einni nál í eigin holu og skapa þannig hreyfingu og hrynjandi eins og bylgjur sem fara um loftið og minna jafnvel á sprengjuregn. Undir leikrænu yfirborðinu býr alvara og það er freistandi að lesa verkið með kynjuðum augum út frá hlutverki kvenna í samfélaginu og sögunni sem ekki fer hátt; öllu því sem lýtur að endurreisn og að hugga, laga, staga og bæta.