
Barnamenningarhátíð í Listasafni Íslands opnaði í gær með glæsibrag þar sem tvær sýningar standa yfir í Lessal Safnahússins við Hverfisgötu. Sýningarnar eiga það sameiginlegt að hverfast um samtal og menningarlegan fjölbreytileika.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands heiðraði börnin með nærveru sinni og opnaði sýningarnar við hátíðlega athöfn. Tröllið Tufti lét þessa opnun ekki framhjá sér fara og mætti við mikinn fögnuð viðstaddra. Við hlökkum til komandi viku þar sem sýningarnar standa yfir til og með 13. apríl á opnunartíma safnsins frá kl. 10 – 17.


„Stattu og vertu að steini!“
Samstarf Listasafns Íslands og Ingunnarskóla hófst haustið 2024 þegar að börnum í íslenskuveri skólans var boðið að heimsækja safnið reglulega yfir veturinn þar sem verkefnið „Stattu og vertu að steini“ fór af stað. Verkefnið snérist um menningararfinn – þjóðsögur og listaverk sem tengjast þeim, en hluti af verkefninu var einnig miðlun á þjóðsögum frá ólíkum heimshornum. Kennarar skólans unnu með fræðsludeild safnsins yfir tímabilið þar sem áhersla var lögð á fræðslu, skapandi listasmiðjur og jákvæða upplifun á safni. Nemendahópurinn samanstendur af börnum á aldrinum 10 – 16 ára og tala þau samtals 11 tungumál. Verkin sem sýnd eru á Barnamenningarhátíð eru afrakstur þessa samstarfsverkefnis Listasafns Íslands og Ingunnarskóla. Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði.


Tungumálavinir á Norðurlöndum – listin að skilja hvert annað
Verkefnið SPIN er skammstöfun fyrir Sprogvenner i Norden - kunsten at forstå hinanden. SPIN hófst í október 2024 og er til tveggja ára. Þátttakendur eru nemendur í 6.bekk í Melaskóla og Háteigsskóla í Reykjavík ásamt jafnöldrum sínum frá Eysturskúlin í Þórshöfn í Færeyjum og Skovvangskolen í Árósum í Danmörku. Markmið SPIN er að efla næmi fyrir menningarlegum fjölbreytileika og stuðla að inngildingu. Börn dýpka skilning á eigin tungumála- og menningarlegum fjölbreytileika, sem og jafnaldra sinna á Norðurlöndum, gegnum fjölbreytt skapandi verkefni og listræna tjáningu. Verkefnið er unnið í samstarfi við Listasafn Íslands, Miðju máls og læsis og Dokk1 í Árósum. Verkefnastjóri SPIN er Kristín R. Vilhjálmsdóttir. Alls eiga 250 nemendur verk á sýningunni og hafa þátttakendur unnið skapandi verkefni út frá sjálfsmyndum og fjölbreytileika. Þátttökuskólar: Melaskóli, Háteigsskóli, Eysturskúlin í Þórshöfn og Skovvangskolen í Árósum. Verkefnið er styrkt af Nordplus.


Krakkaklúbburinn Krummi
12. apríl
Kl. 14 – 16
Tufti tröll mætir í Safnahúsið og Brian Pilkington teiknar á staðnun!
Komið og hittið Tufta tröll og skapara hans Brian Pilkington. Hægt verður að taka skemmtilegar myndir af sér og sínum með hinum tröllvaxna Tufta. Rýmið verður undirlagt af þjóðsagnalistaverkum barna sem unnið hafa með og á safninu síðustu misseri.
Viðburðurinn er styrktur af Barnamenningarhátíðarsjóði Reykjavíkur.

