FJÖLBREYTT FRÆÐSLUSTARF Í LISTASAFNI ÍSLANDS

2.9.2015

Nemendur á öllum aldri og kennarar þeirra eru dugleg að heimsækja Listasafn Íslands, Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og Safn Ásgríms Jónssonar. Fram að áramótum verður sýning á verkum Nínu Tryggvadóttur í Listasafni Íslands, gestir geta fræðst um ævi Picasso og skoðað verk hans JACQUELINE MEÐ GULAN BORÐA (1962), sýning á portrett-verkum í safneign Listasafns Íslands stendur til október 2015 og í VASULKA - STOFU bíður gesta undraheimur rafrænnar myndlistar. Í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar verður opnuð í haust sýning þar sem sjónum er beint að konunni sem viðfangsefni í list Sigurjóns og í safni Ásgríms Jónssonar bíða verk Ásgríms forvitinna gesta. Listasafn Íslands, ásamt Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og Safni Ásgríms Jónssonar býður upp á skemmtilega möguleika í safnafræðslu með mismunandi efnisnálgun fyrir nemendur af öllum skólastigum, skólunum að kostnaðarlausu. Tekið er mið af aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla þar sem það á við. Tekið er á móti nemendum grunn- og framhaldsskóla, auk háskóla og börnum á forskólaaldri, virka daga eftir samkomulagi. Leiðsagnir er hægt að panta í síma 515 9600 eða á netfanginu mennt@listasafn.is. Söfnin þrjú fagna nemendahópum á öllum aldri sem vilja koma í söfnin með eða án leiðsagnar safnakennara. Mælt er með því að hópar sem komi á eigin vegum láti vita af komu sinni.

Verið velkomin í Listasafn Íslands þar sem fjölbreyttar sýningar og dagskrá þeim tengd býður gesta safnsins.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17