Fimmtudaginn 1. september var Listasafni Íslands afhent vegleg gjöf, samtals 22 verk, frá hjónunum Guðmundi Jónssyni og Fríðu Halldórsdóttur. Í gjöfinni eru 12 olíumálverk og 10 pappírsverk sem voru upphaflega í eigu Jóns Þorsteinssonar og Eyrúnar Guðmundsdóttur, foreldra Guðmundar. Meðal höfunda verkanna eru Jóhannes S. Kjarval, Hörður Ágústsson, Ásgrímur Jónsson, Brynjólfur Þórðarson, Karen Agnete Þórarinsson og Sölvi Helgason.
Nýlega barst safninu dánargjöf Guðrúnar K. Júlíusdóttur, myndmenntakennara í Reykjavík sem lést 6. febrúar síðastliðinn. Ánafnaði Guðrún safninu fjögur olíumálverk eftir Ásgrím Jónsson, Jóhannes S. Kjarval, Gísla Jónsson og Sverri Haraldsson.
Eitt af verkum úr dánargjöf Guðrúnar K. Júlíusdóttir
Fyrir stuttu fékk Listasafn Íslands einnig að gjöf fimm grafíkverk frá sjöunda áratugnum eftir bandaríska listamenn og eru þau góð viðbót við fjölbreytt safn erlendra grafíkverka í safneigninni.
Gjafir eru mjög mikilvægar fyrir safneign Listasafns Íslands, en um 75% af safneigninni eru gjafir, eða um 8.400 verk af um 11.300. Munar þar mestu um dánargjafir listamanna eins og Ásgríms Jónssonar, Gunnlaugs Scheving, Finns Jónssonar og Guðmundu Andrésdóttur. Einnig eru gjafir listamanna á einstökum verkum þeirra og gjafir einstaklinga mikilvægar fyrir safnið og metur safnið mikils þá hugulsemi og virðingu sem því er auðsýnd með slíkum gjöfum.