Krakkaklúbburinn Krummi stendur fyrir fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá í hverjum mánuði þar sem kátum krökkum er boðið að fræðast um listaverkin í safneign Listasafns Íslands, skapa listaverk og leika sér í nærandi umhverfi.
Krakkaklúbburinn Krummi – Dagskrá seinni hluta árs 2021
24. júlí kl. 14
Leirum karlinn í tunglinu!
Hér er á ferðinni skemmtileg leirsmiðja í Listasafni Íslands þar sem börnum og fjölskyldum þeirra er boðið í heimsókn til þess að skoða listaverkin á sýningunni Halló, geimur og búa síðan til sitt eigið verk úr leir.
7. ágúst og 21. ágúst kl. 14
Sumarnótt í Listasafni Íslands
Kíkjum á listaverk Ragnars Kjartanssonar Sumarnótt sem sett er upp á sjö skjáum.
Frá verkinu fáum við hugmyndir og búum til listaverk með sama sniði. Hér koma skapalón og skapandi ímyndunarafl við sögu!
4. september og 18. september kl. 14
Málum himintunglin!
Kynnumst töfrum listmálunar og málum saman himingeiminn þar sem listaverkin á sýningunni Halló, geimur veita innblástur.
9. október kl. 14
Ævintýraheimur Muggs
Klippum, límum, sköpum og skemmtum okkur!
Klippimyndasmiðja þar sem sérstæður myndheimur Muggs veitir innblástur að nýjum verkum og ævintýrum.
31. október kl. 17–19
Hrekkjavaka í Safni Ásgríms Jónssonar
Á safninu verða dularfullar verur á ferli og í rökkrinu má sjá verk Ásgríms Jónssonar í öðru ljósi. Álfar, tröll og draugar taka á sig skýra mynd og bjóðum við alla í búningum, stóra sem smáa, sérstaklega velkomna á Bergstaðastræti 74!
20. nóvember kl. 14
Dimmalimm – brúðuleiksýning
Kómedíuleikhúsið setur upp brúðuleiksýningu í Listasafni Íslands.
Dimmalimm er án efa eitt ástsælasta ævintýri þjóðarinnar. Sagan er eftir listamanninn Mugg frá Bíldudal. Ævintýrið fjallar um prinsessuna Dimmalimm sem eignast góðan vin sem er stór og fallegur svanur. En eins og í öllum góðum sögum gerist eitthvað óvænt og ævintýralegt.
4. desember og 18. desember kl. 14
Hefur þú séð Norðurljósin dansa?
Skoðum listaverkið Norðurljósabarinn á sýningunni Halló, geimur og leikum okkur með liti, ljós og skugga. Gerum tilraunir með málningu.
Með Krakkaklúbbnum Krumma vill Listasafn Íslands heiðra Ásgerði Búadóttur myndlistarmann með því að nota skemmtilegar og líflegar klippimyndir úr barnabókinni Rauði hatturinn og krummi eftir Ásgerði, sem innblástur og merki barnastarfsins.