Sýningin Lífsblómið fjallar um fullveldi Íslands í 100 ár. Titillinn er sóttur í skáldsögu Halldórs Laxness Sjálfstætt fólk, sem gerist á þeim tíma er Ísland varð fullvalda ríki. Rétt eins og þetta þekkta bókmenntaverk fjallar Lífsblómið um hina djúpu þrá eftir sjálfstæði. Hún fjallar einnig um það hversu dýrmætt en um leið viðkvæmt fullveldið er. Í hundrað ára sögu fullveldisins hafa ýmsar ógnir steðjað að og varða þær bæði fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, verndun náttúrunnar og þátttöku og ábyrgð í alþjóðlegu samstarfi. Fullveldið er ekki sjálfgefið og því þurfum við að hlúa vel að því. Rétt eins og lítil en harðgerð jurt þarf fullveldið á næringu að halda og þessi næring felst meðal annars í því að skiptast á skoðunum og deila heiminum með öðrum.
Í ljóðinu „Þjóðin og ég“ yrkir Steinn Steinarr um „hina þjóðfrægu menn og hinn þungbúna nafnlausa skara,” og minnir okkur þannig á að saga þjóðarinnar er ekki aðeins saga hinna þjóðfrægu manna, heldur ekki síður fólksins í landinu; fólks af ólíkum uppruna, stétt og stöðu sem hefur átt sinn þátt í að móta sögu fullvalda þjóðar síðustu 100 árin. Á sýningunni Lífsblómiðer því lögð áhersla á að tefla saman hinu stóra og smáa, opinberu lífi og einkalífi.
Að sýningunni standa Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðskjalasafn Íslands og Listasafn Íslands. Handrit, skjöl og myndlistaverk frá þessum stofnunum mynda kjarnann í sýningunni. Auk þess hafa önnur söfn og stofnanir, sem og einkaaðilar, bæði hér á landi og í Danmörku, lánað verk á sýninguna. Myndlistin ljær umræðunni um ýmis átakamál á fullveldistímanum rödd og ýmsar sögulegar heimildir veita okkur aðgang að hugsun og lífi þeirra sem horfin eru á braut. Í hjarta sýningarinnar er að finna handrit og mikilvæg skjöl er varða íslenska menningu og snerta sjálfsmynd þjóðarinnar, sjálfstæðisbaráttuna og fullveldi Íslands.
Sýningarstjóri er Sigrún Alba Sigurðardóttir.
Hönnuðir sýningarinnar eru Snæfríð Þorsteins, Hrefna Björg Þorsteinsdóttir og Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir.
Ljósmynd: Atkvæðaseðill frá kosningunum um sambandslagasamninginn árið 1918. Ekki voru allir sannfærðir um að Ísland ætti að verða fullvalda ríki. Þjóðskjalasafn Íslands.