Listaverkagjöf Ásgríms til íslensku þjóðarinnar inniheldur rúmlega 700 olíu- og vatnslitamyndir, fullgerðar sem ófullgerðar, á annað þúsund teikningar og 150 teiknibækur auk fjölda ófullgerðra mynda frá ýmsum tímum. Ásgrímur kom víða við í list sinni og má skipta myndum hans í nokkra efnisflokka, til að mynda þjóðsagnamyndir, landslagsmyndir, borgarlandslag, mannlífsmyndir og kyrralífsmyndir.
Á vefsýningunni Listamaður þjóðarinnar eru sýnd valin verk úr eftirfarandi efnisflokkum:
Þjóðsagnamyndir – þar sem listamaðurinn myndskreytir íslenskar þjóðsögur og ævintýri
Landslagsmyndir – þar eru myndefnin að stórum hluta frá Húsafelli og Þingvöllum
Borgarlandslag – sem sýnir myndefni frá Reykjavík og nágrenni
Stuttur texti fylgir hverjum flokki í þeim tilgangi að dýpka skilning áhorfandans á verkunum.
Það er mikilvægt verkefni Listasafns Íslands að kynna list Ásgríms og sögulegt hlutverk hans í íslenskri listasögu og er þessi sýning liður í þeirri viðleitni safnsins.
Sýningarstjóri: Vigdís Rún Jónsdóttir
Vefsýningin er unnin með styrk frá Rannsóknarsjóði Íslands, Nýsköpunarsjóði námsmanna. Umsjónarmenn verkefnisins voru Rakel Pétursdóttir, deildarstjóri rannsókna og sérsafna við Listasafn Íslands og dr. Hlynur Helgason, lektor við Háskóla Íslands.