LISTAMANNASPJALL - LAMIA JOREIGE

4.2.2019

Listamannaspjall við Lamiu Joreige þann 10. febrúar kl. 14 í umsjá Júlíu Marinósdóttur, verkefnastjóra sýninga í Listasafni Íslands.

Lamia Joreige er sjónlista- og kvikmyndagerðarkona sem býr og starfar í Beirút. Listaverk hennar hafa verið til sýnis á ýmsum sýningum, söfnum og opinberum stöðum; þar á meðal eru: Pompidou-listamiðstöðin og Nicéphore Niépce-safnið í Frakklandi; Carpenter-miðstöð sjónlista við Harvard-háskólann, Alþjóðlega ljósmyndamiðstöðin í New York, Nýja samtímalistasafnið í New York, Nútímalistasafnið í San Francisco and Taymour Grahne-galleríið; Tate Modern-listasafnið, Tate Britain-listasafnið, Serpentine-galleríið og Þjóðlistasafn Bretlands í Cardiff; Tanit-galleríið og Art Factum í Líbanon. Lamia Joreige er meðal stofnenda og stjórnarmanna Listamiðstöðvarinnar í Beirút, sem hún ásamt öðrum veitti forstöðu á árunum 2009 til 2014.

Á sýningunni Beirút, Beyrut, Beyrouth, Beyrout er saga félagslega flókins samfélags dregin fram og skoðuð með skerpu og hlýju. Heiti sýningarinnar vísar til þess menningarlega fjölbreytileika sem Líbanon og Austurlönd nær búa yfir en þau eiga sér langa sögu sem fjöltyngt fjölmenningarsvæði.

Beirút er áhugaverður listvettvangur þar sem þar er að finna evrópskt sjónarhorn á einstökum stað. Þar eð borgin varð franskt yfirráðasvæði upp úr fyrri heimsstyrjöld komu þar saman menningarheimar sem hafa gert hana að einni frjálslyndustu borg Mið-Austurlanda. Sterkra áhrifa Frakka gætir enn eftir að yfirráðum þeirra lauk, þar sem franska er viðurkennt tungumál og kennd ásamt arabísku.

Heiti borgarinnar er stafað á marga mismunandi vegu, sem er áberandi hvert sem litið er: á skiltum, veitingastöðum, stofnunum, vegvísum, póstkortum og víðar. Ástæðan fyrir þessu er að öllum líkindum mismunandi túlkun á arabískum stöfum auk áhrifa úr latínu, frönsku og ensku. Að þessu leyti eru mismunandi tímabil í sögu borgarinnar enn gædd lífi. Talið er að nafnið eigi uppruna sinn í fönikíska orðinu be’erot eða brunnur sem vísar til neðanjarðarlinda. Hver staður hefur ekki aðeins eina sögu heldur er í honum að finna fjölda mismunandi radda sem hljómað hafa í tímans rás. Borgin býður alla velkomna og njóta listamenn stuðnings hver frá öðrum þrátt fyrir ólíkan bakgrunn og hafa margir þeirra tvöfaldan ríkisborgararétt.

Samtalið um list, hlutverk hennar og tengsl við samfélagið, er í stöðugri mótun. Skoðanaskipti eru eðlilegur hluti af samtalinu. Þar sem segja má að Beirút sé sögulega með annan fótinn í Mið-Austurlöndum og hinn í Evrópu, verður samtalið marglaga.

Í verkunum á sýningunni tvinnast saman hugmyndir um landsvæði, landslag, landamæri og tengslin við sögu og minni. Þó þessar hugmyndir séu ekki einskorðaðar við Beirút, þá er borgin notuð sem upphafsreitur til skoðunar á þeim tímum sem við lifum og einkenna þá list sem kemur frá henni.

Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að margir menningarlegir fletir birtast í listinni en borgin hefur undirgengist margar styrjaldir á tuttugustu öldinni. Þar hefur eyðilegging verið mikil í sögulegu tilliti og gætir þeirra áhrifa enn. Þrátt fyrir það hefur Beirút endurnýjað sig sem menningarborg. Jad Tabet, líbanskur arkitekt og fulltrúi heimsminjanefndar (World Heritage Committee) lýsti borginni með þessum orðum: „Satt er að stríð er stærsti arkitektinn í sögunni, en einnig endurskapar fólkið það sem stríð skilur eftir sig og gæðir það mannlegum eiginleikum.“ Sárin eru enn til staðar, sögur sem hafa farið leynt ásamt minningum sem hafa glatast eða eiga á hættu að týnast. Pólitískar væringar og átök nágrannaríkja hafa haft áhrif á mótun og andrúmsloft borgarinnar, rétt eins og sköpunarhæfileikar, frásagnir og draumar íbúanna auðga hana. Það er viðfang listarinnar að nálgast slíkan stað, sögu hans og nútíma.

Á sýningunni má sjá verk eftirtalinna alþjóðlegra listamanna: Mounira Al Solh, Monira Al Qadiri, Ziad Antar, Ali Cherri, Ahmad Ghossein, Joana Hadjithomas og Khalil Joreige, Lamia Joreige, Mazen Kerbaj, Stéphanie Saadé, Lucien Samaha, Helle Siljeholm, Suha Traboulsi, Raed Yassin og Akram Zaatari.

Sýningarstjórar eru Marianne Hultman, Ýrr Jónasdóttir og Birta Guðjónsdóttir.

Sýningin var áður sýnd í Oslo Kunstforening, Noregi og í Ystads konstmuseum, Svíþjóð.

Sýningin er styrkt af Nordisk kulturkontakt / Nordic Culture Point.

Ljósmynd: Lamia Joreige, The River, 7, 8, 9, 10, 2016, Wax, pigments, graphite pencil, pastels & crayons on Velin d’Arche paper, 65 x 100 cm

 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17