Sýning á verkum Steinu Vasulka í Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur

3.1.2025

Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur munu sameiginlega standa að viðamikilli sýningu á verkum myndlistarkonunnar Steinu Vasulka.

Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur eru stolt af samstarfi safnanna að yfirgripsmikilli sýningu á verkum myndlistarkonunnar Steinu Vasulka. Sýningin verður opnuð í báðum söfnum 4. október 2025 og tekur þá yfir tvö stærstu listasöfn landsins. Steina er einn helsti frumkvöðull vídeólistar og nýmiðlunar í heiminum og brautryðjandi og áhrifamanneskja á sviði samtímalistar hérlendis. Með verkum sínum hefur hún tengt saman vídeólist, tónlist og tækni á einstaklega skapandi og frjóan hátt.   

Sýningin er fyrsta stóra yfirlitssýningin á verkum Steinu hér á landi. Hún var upphaflega skipulögð í Bandaríkjunum undir heitinu Playback og sett þar upp á tveimur söfnum árið 2024 en hér á landi verður hún viðameiri að umfangi og inntaki. Rakinn verður listrænn ferill Steinu frá upphafi til samtímans og birtir sýningin í heild því afar áhugaverða mynd af þróun tækni og listar á síðustu áratugum.

Steina Violin Power I, 1970–1978 Myndband, 10,04 mín.

Steina (fædd Steinunn Briem Bjarnadóttir, 1940) lærði fiðluleik í Reykjavík og Prag, og flutti til New York árið 1965 með eiginmanni sínum, Woody Vasulka. Í lok sjöunda áratugarins hóf hún að einbeita sér að myndbandsverkum og stofnaði árið 1971 The Electronic Kitchen (síðar The Kitchen), sem var goðsagnakenndur sýningar- og samkomustaður fyrir hljóð- og myndbandslistamenn í New York. Hún flutti til Buffalo árið 1973 þar sem hún þróaði vinnu sína að myndlist og tæknirannsóknum enn frekar. Frá árinu 1980 hefur hún búið í Santa Fe í Nýju-Mexíkó, sýnt reglulega víða um heim og eru mörg verka hennar talin til lykilverka í sögu vídeólistar.

Sýning Steinu verður opnuð 4. október 2025 og lýkur 11. janúar 2026. Hún fer fram í fjórum sýningarsölum Listasafns Íslands við Fríkirkjuveg og fjórum sölum Listasafns Reykjavíkur – Hafnarhúsi við Tryggvagötu. Sýningin er skipulögð af MIT List Visual Arts Center í samvinnu við Buffalo AKG-listasafnið. Sýningarstjórar eru Natalie Bell, MIT List Visual Arts Center, og Helga Christoffersen, Buffalo AKG-listasafninu. Hérlendis stýra verkefninu Markús Þór Andrésson og Pari Stave.

Steina Violin Power I, 1970–1978 Myndband, 10,04 mín.

Safnstjórar listasafnanna tveggja, þær Ingibjörg Jóhannsdóttir og Ólöf K. Sigurðardóttir, segja að sýningin sé einstakt tækifæri til að skoða verk eins af frumlegustu og áhrifaríkustu samtímalistamönnum Íslands. „Við ákváðum að vinna saman að þessu verkefni til að gefa þessari sýningu eins mikið pláss og kostur er en mörg verka Steinu njóta sín best þegar þau fá mikið rými.“ Söfnin tóku síðast höndum saman fyrir tuttugu árum þegar verk Dieters Roth voru sett upp á mikilli yfirlitssýningu árið 2005. „Samstarfið gerir okkur kleift að sýna mörg af mikilsverðustu verkum Steinu Vasulka á Íslandi og fyrir vikið gefst stórkostlegt tækifæri til að kafa djúpt í verk hennar og hugmyndafræði – við trúum því að sýningin muni vekja nýja umræðu um list og tækni í samtímanum.“

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17