GAKKTU Í BÆINN!
MENNINGARNÓTT Í LISTASAFNI ÍSLANDS 24. ÁGÚST 2019.
Safnið iðar af lífi með fjölbreyttum viðburðum allan daginn.
Opnunartími safna:
Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg er opið frá kl. 10 – 23
Safn Ásgríms Jónssonar er opið frá kl. 13 – 22
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar er opið frá kl. 13 – 17
Aðgangur í safnið er ókeypis þennan dag.
KRAKKAKLÚBBURINN KRUMMI
Kl. 15:00 DANSAÐ MEÐ LISTAVERKUNUM
Í tilefni þess að Krakkaklúbburinn Krummi kynnir nýja og spennandi haustdagskrá 2019 munu nemendur Dansgarðsins flytja dansverk innan um listaverk þjóðarinnar á sýningunni Fjársjóður þjóðar.
Kl. 15:30 – 20:00 FJÁRSJÓÐSLEIT Í SAFNINU
Ferðumst um sýninguna Fjársjóður þjóðar og sjáum listaverkin okkar í nýju ljósi. Fjársjóðsleit í Listasafni Íslands – listaverkin eru fjársjóður þjóðarinnar, þau koma á óvart og við erum alltaf að uppgötva eitthvað nýtt!
Krakkaklúbburinn Krummi stendur fyrir fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá í hverjum mánuði þar sem kátum krökkum er boðið að fræðast um listaverkin í safneign Listasafns Íslands, skapa listaverk og leika sér í nærandi umhverfi. Með Krakkaklúbbnum Krumma vill Listasafn Íslands veita börnum og fjölskyldum þeirra tækifæri til þess að njóta góðra stunda saman á safninu. Dagskráin er vönduð og öllum er velkomið að taka þátt, sér að kostnaðarlausu.
Kl. 10- 23POP-UP MARKAÐUR Í SAFNBÚÐ LISTASAFNS ÍSLANDS
Safnbúð Listasafns Íslands hefur á undanförnum árum staðið fyrir útgáfu á fallegum listaverkaplakötum sem fegra veggi heimilisins. Á Menningarnótt 24. ágúst verða vörur safnbúðarinnar á sérstökum Pop-up markaði í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg 7.
KL. 16 LISTAGANGA
Gönguferð frá Listasafni Íslands að heimili og vinnustofu Ásgríms Jónssonar, (1876-1958), sem var einn af okkar fyrstu listmálurum. Á leiðinni sjáum við hús sem endurspegla mismunandi stílbrigði í byggingarlist á 20. öld, þar sem fjölmargir listamenn áttu heimili og vinnustofur. Sannkölluð menningarferð! Lengd45-60 mínútur
Kl. 17LISTAMANNASPJALL – HVERRA MANNA ERTU?
AUÐUR JÓNSDÓTTIR RITHÖFUNDUR RÆÐIR VIÐ HULDU HÁKON
Nú stendur yfir yfirlitssýning í Listasafni Íslands á verkum Huldu Hákon sem á nú að baki hátt í fjörutíu ára feril. Hulda markaði sér fljótt sérstöðu í íslenskri listasögu bæði í efnisvali og myndmáli. Flest verka hennar eru lágmyndir og eru elstu verkin gerð úr spýtnabraki. Lágmyndirnar sem hún smíðaði þóttu frumleg viðbót við flóru Nýja málverksins og óvænt andsvar við hið ríkjandi taumleysi sem einkenndi listsköpun ungs fólks á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar.Hulda hefur alla tíð skoðað umhverfi sitt og samfélag okkar með gagnrýnum hætti og umhverfisvitund, neysluhyggja og samskiptahefðir eru meginviðfangsefni verka hennar. Hún sækir í sagnaarf Íslendinga og sviðsetur í verkum sínum hetjur, fólk, dýr og ýmsar aðstæður sem geta verið séríslenskar eða sammannlegar. Inn í frásagnir sínar fléttar hún skilaboð, misvísandi texta sem ljá gjarnan verkum hennar víðari merkingu.Verkin á sýningunni spanna allan feril Huldu, frá 1983 til 2019. Auk þeirra sýnir Listasafn Íslands viðtalsmynd við listamanninn sem unnin var sérstaklega í tengslum við sýninguna. Sýningarstjóri er Harpa Þórsdóttir.
Vegleg sýningarskrá er komin út í tilefni sýningarinnar Hverra manna ertu?
Kl. 20 SÖNGHÓPUINN SPECTRUM SYNGUR Í LISTASAFNI ÍSLANDS SPECTRUMSEIÐUR
Í Spectrum er kraftmikið söngfólk á öllum aldri, úr ólíkum geirum atvinnulífsins en sönghópurinn hefur verið starfandi í sextán ár. Stjórnandi er Ingveldur Ýr Jónsdóttir Söngkona. Á Menningarnótt flytur hópurinn vandaða dagskrá í Listasafni Íslands þar sem fjölbreytileiki, lífleg framkoma og flutningur metnaðarfullra útsendinga einkennir sönghópinn. Flutt verða erlend lög í bland við þekkt íslensk lög á borð við Riddarann og Heyr Himnasmiður.
Hér má sjá upplýsingar um yfirstandandi sýningar.