Árlega bætast ný verk í safneign Listasafns Íslands, bæði keypt verk og gjafir og eru að jafnaði keypt á milli 20 og 30 verk á ári. Keypt verk eru tæplega fjórðungur safneignarinnar og gjafir um ¾ hlutar. Í Listasafni Íslands starfar Innkaupanefnd skipuð af ráðherra til þriggja ára í senn sem ákveður kaup listaverka til safnsins og fjallar um gjafir sem safninu eru boðnar. Við val listaverka ber nefndinni meðal annars að fara eftir listrænu gildi þeirra og hafa í huga hvað safnið á eftir sama höfund auk þess sem leitast skal við að safnkosturinn endurspegli sem best strauma og stefnur í íslenskri og alþjóðlegri myndlist á hverjum tíma. Listasafn Íslands er eign íslenska ríkisins og er höfuðsafn á sviði myndlistar.
Hér má finna upplýsingar um þau verk sem hafa bæst við safneign Listasafns Íslands árið 2023, bæði innkaup og gjafir sem hafa verið þegnar.
Þess má geta að á árinu 2023 barst safninu hluti af veglegri gjöf í tilefni 40 ára afmælisýningar Gallerís Gangs og eru öll verkin á sérsýningunni "40 ára afmælissýning Gangsins" á Sarpi.