Rannsóknarnám í listum og listfræði hlýtur styrk úr Samstarfi háskólanna
Verkefni um rannsóknarnám í listum og listfræði í samstarfi Listaháskóla Íslands, Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og Listasafns Íslands hlaut veglegan þróunarstyrk til tveggja ára við aðra úthlutun úr Samstarfi háskólanna á vegum Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Um er að ræða þróunarverkefni á sviði samtímamyndlistar með áherslu á lítt rannsakaða arfleifð verka í tímatengdum miðlum úr safneign Listasafnsins.
Verkefnið felur í sér nýja nálgun við doktorsnám í hugvísindum og þróunarverkefni um innleiðingu doktorsnáms í listum, byggt á aðferðum listrannsókna. Stofnað verður til tveggja rannsóknastaða sem fella megi undir skilgreiningar náms á þriðja þrepi háskóla (doktorsstig) og leggja grunn að slíku gráðunámi, annars vegar með stöðu listrannsakanda (e. artistic research) og hins vegar listfræðilegs rannsakanda. Rannsóknirnar munu beinast að viðfangsefnum innan stafrænnar/rafrænnar myndlistar í safneign Listasafns Íslands. Rannsóknastöðurnar fela í sér þróun nýrra aðferða sem tvinna saman fræði og listsköpun í beinu samstarfi við höfuðsafn íslenskrar myndlistar.
Listaháskólinn hefur markað sér þá stefnu að innleiða doktorsnám í listum á þverfaglegum grunni listanna á næstu árum. Verkefnið felur í sér tækifæri til að prufukeyra nýjar rannsóknaraðferðir, sambærilegar við þær doktorsstöður sem LHÍ hefur þegar aðkomu að í gegnum víðamikið listrannsóknarverkefni dr. Þórhalls Magnússonar, Intelligent Instruments, sem hýst er við skólann í samstarfi við Hugvísindasvið HÍ. Þannig er lagður enn frekari grunnur að jafningjasamfélagi á fræðasviðinu listir í beinu samtali við fag- og hagaðila á vettvangi íslenskrar menningar. Þá er verkefnið til þess fallið að virkja samfélagslegan slagkraft listanna og aðgengi almennings að rannsóknarferli og sköpun nýrrar þekkingar innan fræðasviðanna tveggja.
,,Samstarf háskóla var sett á laggirnar til að ýta undir nýsköpun og framfarir á háskólastigi. Öflugt samstarf er forsenda aukinna gæða og fjölbreytni. Þetta samstarfsverkefni er gott dæmi um það sem við viljum kalla fram hjá skólunum þar sem samvinna og nýsköpun ýtir undir rannsóknir og framþróun og styrkir okkur í alþjóðlegri samkeppni,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla,- iðnaðar, og nýsköpunarráðherra.
Rektor Listaháskóla Íslands, Kristín Eysteinsdóttir segir styrkinn fela í sér mikilvægan stuðning við þróun rannsóknamenningar í listum: „ Með þessu verkefni er hægt að halda áfram fyrsta fasa við innleiðingu doktorsnáms í listum hér á landi, bæði með tilliti til hugmyndafræðilegrar nálgunar og nýstárlegrar umgjarðar um slíkt nám. Við fögnum því þessu mikilvæga skrefi og hlökkum til samstarfsins.“
Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindsviðs Háskóla Íslands segir það fagnaðarefni að umsókn samstarfsverkefnis um doktorsnám á sviði lista og listfræða skuli hafa hlotið brautargengi: „Ég er sannfærð um að slíkt doktorsnám á sviði lista og listfræði í samstarfi háskóla og listasafna mun stuðla að öflugri rannsóknum á sviði lista, efla enn frekar samstarf háskóla og safna og gera íslenskar rannsóknir í og á listum samkeppnishæfari alþjóðlega. Þá er verkefnið til þess fallið að virkja samfélagslegan slagkraft listanna og aðgengi almennings að rannsóknarferlinu sjálfu, sem og niðurstöðum þess.“
„Með þessum tveimur rannsóknarstöðum er stigið mikilvægt skref fyrir íslenska myndlist,“ segir Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands. Safnið mun nota tækifærið og blása nýju lífi í Vasulkastofu sem stofnuð var innan safnsins fyrir 10 árum og er ætlað að rannsaka myndlist Steinu og Woody Vasulka og vera um leið miðstöð raf- og stafrænnar myndlistar á Íslandi. Myndlist Steinu og Woody grundvallast á einstaklega skapandi afstöðu til alls kyns tækninotkunar í myndsköpun og er það spennandi umgjörð fyrir fólk sem stefnir á doktorsnám í myndlist.“
Ljósmynd:
Steina ©
Machine Vision, 1978
LÍ - 9143