Safnaþrennan: Fjársjóðir höfuðsafnanna – samfélag, listir og náttúra
Hvernig er hægt að vekja áhuga ungs fólks á samfélagi, listum og náttúru í gegnum söfn? Hvernig má nýta safnheimsóknir til að hvetja nemendur til sjálfstæðra vinnubragða og túlkunar?
Safnkennarar höfuðsafnanna þriggja, Listasafn Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands og kennari menningarlæsis í Tækniskólanum tóku höndum saman um að móta námsleið sem fella má inn í til dæmis menningarlæsisáfanga eða lífsleikniáfanga í framhaldsskóla. Verkefnið var prufukeyrt undir vinnuheitinu Safnaþrennan í janúar og febrúar 2023 með um 15 nemendum.
Markmið námsleiðarinnar var að efla náttúru- og menningarlæsi, gagnrýna hugsun og sjálfstæði nemenda. Að nýta höfuðsöfnin sem námsvettvang og hvetja til skapandi úrvinnslu er kjörin leið til að vinna að þessum markmiðum. Mikið var lagt upp úr nemendasjálfstæði og verkefnaskil áttu að vera persónuleg umfjöllun, tenging við upplifun og skilning.
Safnkennarar tóku saman hugtakalista með orðum sem tengt geta sýningar safnanna þriggja, til dæmis: spor, eldvirkni, mynstur, jarðvegur, hið ósýnilega og rætur. Þannig gátu nemendur farið á milli og leitað að efnivið út frá sama hugtakinu á öllum söfnunum.
Að leggja af stað án þess að vita hver niðurstaðan verður, krefst skapandi hugsunar, bæði hjá nemendum og kennurum. Niðurstöður eftir prufukeyrslu voru afgerandi jákvæðar en miklum meirihluta nemendanna þótti safnheimsóknirnar og verkefnavinnan skemmtileg, fjölbreytt og áhugaverð. Flest ætluðu að heimsækja safn aftur fljótlega sem bendir til að söfnin hafi skilið eftir jákvæð hugrenningatengsl og upplifun hjá nemendum.
Framhaldskólakennarar geta fengið nánari upplýsingar um verkefnið og óskað eftir þátttöku í gegn um netfangið mennt@listasafn.is