Gleðilegt sumar!
Íslendingum er tamið frá fæðingu að ekkert jafnist á við íslenska sumarið – að árstíðin, þó stutt sé, feli í sér óræð öfl töfrum líkust. Sennilega felst dýrðarljómi sumarsins meðal annars í því að hafa lifað af enn einn íslenskan vetur.
Gott veðurfar er almennt talið hafa jákvæð áhrif á skaplyndi fólks og mæla sérfræðingar með að minnsta kosti hálftíma útiveru á dag til að næla sér í D-vítamín sem stuðlar að bættri líkamlegri og andlegri heilsu. Myndlist hefur þó einnig reynst hafa mælanleg áhrif á andlega heilsu fólks. Að virða fyrir sér myndlist í litlar 35 mínútur á dag dregur m.a. úr framleiðslu kortisóls og skyldra streituhormóna.
Öll vitum við að sumarið endist ekki að eilífu og fyrr en varir hrifsar veturinn af okkur sólgleraugun. Hámörkum gleðina í sumar og stefnum á sól og söfn! Við eigum það skilið.
Frá og með 1. maí eru safnahús Listasafns Íslands opin alla daga vikunnar frá 10 til 17.
Hlökkum til að sjá ykkur