SUNNDAGSLEIÐSÖGN: UDSTILLING AF ISLANDSK KUNST - UPPHAF KYNNINGAR Á ÍSLENSKRI MYNDLIST Í KAUPMANNAHÖFN
7.4.2016
Í upphafi 20. aldar var unnið mikið brautryðjendastarf á sviði myndlistar á Íslandi og þeim fjölgaði ört sem lögðu stund á hana. Myndlistin var meðal þess sem átti þátt í að skapa sjálfsmynd hinnar fullvalda þjóðar og þar skipti miklu máli túlkun myndlistarmanna á íslenskri náttúru. Í verkum sínum tjá myndlistarmennirnir tilfinningar sínar gagnvart landinu á myndrænan hátt, um leið og þeir tala umbúðalaust og án aðstoðar tungumálsins. Árið 1927 var haldin fyrsta opinbera kynningin á íslenskri myndlist í Kaupmannahöfn, Udstilling af islandsk Kunst í Charlottenborg. Sýningin var tímamótasýning, þar voru sýnd tæplega 350 verk eftir tólf íslenska myndlistarmenn. Sjö árum áður, árið 1920 stóð Dansk-Islandsk Samfund fyrir fyrstu samsýningunni á íslenskri myndlist, Fem islandske malere, í sýningarsal Kleis með 158 verkum fimm myndlistarmanna.
Á sýningunni nú í Listasafni Íslands er litið um öxl og sýndur hluti verkanna sem voru í Kaupmannahöfn. Verkin sem sjá má á núverandi sýningu í Listasafni Íslands eru aðeins hluti þeirra verka sem sýnd voru í Kaupmannahöfn 1920 og 1927. Koma flest þeirra úr safneign Listasafns Íslands en einnig eru verk fengin að láni hjá öðrum söfnum, fyrirtækjum og einkaaðilum.
Sýningarstjóri er Dagný Heiðdal.