Sunnudagsleiðsögn – Fjársjóður þjóðar

13.5.2020

Sunnudaginn 17. maí kl.14 leiðir Rakel Pétursdóttir sérfræðingur hjá Listasafni Íslands gesti um sýninguna Fjársjóður þjóðar - valin verk úr safneign.

Aðgangseyrir á safnið gildir, frítt fyrir meðlimi Selmuklúbbsins. Á sýningunni Fjársjóður þjóðar er úrval verka úr safneign Listasafns sem gefur yfirlit yfir þróun myndlistar á Íslandi frá upphafi 20. aldar. Í byrjun 20. aldar og fram á fimmta áratug hennar, var náttúra landsins aðalviðfangsefni íslenskra málara. Hún var í hugum manna tákn þess sem íslenskt var og birta og víðerni íslenskrar náttúru var það sem íslenskir listamenn töldu fegurst. Málverkið á þessum tíma þróaðist úr hinni rómantísku upphöfnu sýn 19. aldar á landið, eins og sjá má í verkum Þórarins B. Þorlákssonar og Ásgríms Jónssonar, yfir í nútímalegri hugsun sem einkennir myndlist Vestur-Evrópu á fyrri hluta 20. aldar hvað varðar formbyggingu, litanotkun og tjáningu listamannsins. Má þar fremst nefna Jón Stefánsson og Jóhannes S. Kjarval sem hleyptu nýjum straumum í myndlistarlífið á Íslandi og urðu fyrirmynd margra málara á þessum tíma. Á fjórða áratugnum má greina glögg skil milli tveggja ólíkra viðfangsefna í íslenskri myndlist. Annarsvegar eru þar landslagsmálverk þeirra málara sem hafa verið kynntir til sögunnar en einnig kemur fram ný kynslóð listamanna sem fer að líta sér nær og skoða sitt nánasta umhverfi og gæða það andlegu inntaki á striganum. Viðfangsefni þessara málara voru oft ólík og litanotkun og tækni í ætt við expressjónisma millistríðsáranna á meginlandinu og í Skandinavíu. Íslensk alþýða til sjávar og sveita verður vinsælt viðfangsefni svo og myndir af lífi fólks í kauptúnum. Um miðja 20. öldina hóf abstraktlist að ryðja sér til rúms hér á landi, einkum á árunum strax eftir síðari heimsstyrjöldina. Sú þróun sem hér verður í íslenskri myndlist sýnir glöggt hversu vel listamennirnir fylgdust með þeim straumum og stefnum sem voru í gangi á meginlandinu á þessum tíma á vettvangi myndlistarinnar. Svavar Guðnason varð fyrstur íslenskra listamanna til að tileinka sér abstrakt-expressjónisma í lok 4. áratugarins þar sem innri upplifun og tilfinningar listamanna urðu uppspretta tjáningar þeirra á myndfletinum í óhlutbundnu myndmáli lita og forma. Hann hélt fyrstu heildstæðu sýninguna á abstraktlist hér á landi árið 1945 og átti þessi sýning Svavars eftir að hafa mikil áhrif á komandi kynslóðir myndlistarmanna sem kusu að feta slóðir abstraktlistarinnar. -Kaffi list - bubblur og beyglur hefur nú opnað í veitingarýminu í Listasafni Íslands. Þar er meðal annars boðið upp á súpur, salöt, bubblur og beyglur. Mynd: Ásgrímur Jónsson, Hekla, 1909

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17