Elina Brotherus (f. 1972 í Finnlandi) fæst að mestu við gerð sjálfsmynda og landslagsmynda. Í verkum Elinu má skynja sterka nálægð hennar sjálfrar en hún kemur fyrir í öllum ljósmynda- og vídeóverkum sýningarinnar, berskjölduð og hispurslaus. Verkin eru unnin á árunum 2016-2017 og einkennast af marglaga frásögnum sem sveiflast á milli kímni og trega. Í mörgum þeirra setur Elina sér leikreglur og fer eftir þeim innan ramma myndavélarinnar, sem er í senn leikfélagi hennar og sálarspegill.Verk Elinu vöktu snemma athygli vegna nálgunar hennar á notkun ljósmiðla til endurspeglunar á tilfinningalífinu og leikriti hins daglega lífs. Hún kannar persónulegar en í senn sammannlegar upplifanir, sjálfsmyndina, tímahugtakið, nærveru og fjarveru ástarinnar.
Elina Brotherus nam ljósmyndun í Helsinki og býr í Finnlandi og Frakklandi. Hún hóf að sýna verk sín í lok 10. áratugarins sem hluti af hinum þekkta Helsinki School hópi ljósmyndara í Finnlandi og hafa verk hennar síðan verið sýnd víða, s.s. í Centre Pompidou í París; Neue Berliner Kunstverein í Berlín; Þjóðarlistasafni Finnlands Ateneum í Helsinki og Louisiana nútímalistasafninu í Danmörku. Verk Elinu voru sýnd í i8 Gallery í Reykjavík árið 2000 og á samsýningu í Gerðarsafni í Kópavogi árið 2006.Sýningarstjóri: Birta GuðjónsdóttirSýningin er á dagskrá Ljósmyndahátíðar Íslands 2018 In englishLjósmynd: Elina Brotherus, Orange Event, 2017. Úr myndaröðinni Règle du Jeu / Leikreglur.Courtesy Elina Brotherus and gb agency, Paris / carte blanche PMU 2017