SÝNINGAR FRAMUNDAN Í LISTASAFNI ÍSLANDS

29.12.2015

Chantal Joffe, Gauthier Hubert, Jocken Nordström,Tumi MagnússonListasafn Íslands hefur sýningadagskrá sína á nýju ári með sýningu fjögurra samtímalistamanna, þeirra Gauthiers Hubert (1967), Chantal Joffe (1969), Jockums Nordström (1963) og Tuma Magnússonar (1957). Öll vinna þau með sjálfan manninn í brennidepli. Framsetning verka þeirra snýst um listmiðilinn og sögu hans að fornu og nýju og þau ganga út frá ákveðnum sögulegum forsendum en með afar ólíkum hætti.

Gauthier Hubert tekur hugmyndlæga afstöðu til málverksins og spretta verk hans af sagnfræðilegum atvikum sem bregða skýru ljósi á starf og hugarheim listamannsins í fortíð og nútíð.

Chantal Joffe gengur gjarnan út frá sjálfri sér, sínu nánasta umhverfi. Verk hennar eru í senn nærgætin, innileg og nærgöngul.

Jockum Nordström teiknar, klippir og límir upp barnslegar myndir af samfélagi eins og það birtist okkur gjarnan í sögulegum sápuóperum um húsbændur og hjú. Undir liggur þó sori og siðleysi.

Teygðar og afmyndaðar myndir Tuma Magnússonar af líkamspörtum og hauskúpum eru nær beinar tilvísanir í myndmál sem hrekkjóttir meistarar á 16. öld beittu gegn hugmyndaþurrð samtíðarinnar.

Árið 1927 var haldin fyrsta opinbera kynningin á íslenskri myndlist í Kaupmannahöfn, Udstilling af islandsk kunst í Charlottenborg. Sýningin var tímamótasýning, þar voru sýnd tæplega 350 verk eftir tólf íslenska myndlistarmenn. Sýningin var haldin að frumkvæði danska blaðamannsins Georgs Gretor með opinberum styrk og því yfirlýsta markmiði að efna til kynningar á íslenskri myndlist erlendis. Sýningin hefur gengið undir heitinu Íslenska listsýningin í Kaupmannahöfn.

Sjö árum áður,,árið 1920 stóð Dansk-Islandsk Samfund fyrir fyrstu samsýningunni á íslenskri myndlist, Fem islandske malere, í sýningarsal Kleis með 158 verkum fimm myndlistarmanna. 

Á sýningunni nú í Listasafni Íslands verður litið um öxl og sýndur hluti verkanna sem voru á þessum tímamótasýningum í Kaupmannahöfn. Sýningin er unnin í samvinnu við Dansk-íslenska félagið, sem stofnað var í Kaupmannahöfn árið 1916, en eitt af markmiðum félagsins er að stuðla að aukinni þekkingu á Íslandi í Danmörku. 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17