Að loknu námi við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn hraðar Ásgrímur sér heim til Íslands, frelsinu feginn með tilhlökkun í hjarta. Helsti ásetningur hans var að tengjast landinu á nýjan leik og nýta áunna þekkingu til að mála náttúru landsins og tjá þannig ást sína á landi og þjóð. Fanga augnablikið, hina síhvikulu birtu og mála úti við að hætti „plein air“-málaranna frönsku og gullaldarmálaranna dönsku, en flestir kennarar Ásgríms, svo sem Frederik Vermehren, Otto Bache og Holger Grønvold, voru af Eckersberg-skólanum. C.W. Eckersberg (1783–1853) var einn dáðasti listmálari Dana og um tíma prófessor og skólastjóri Konunglega listaháskólans og eru heiðursverðlaun Akademíunnar kennd við hann. Við heimkomuna árið 1909 sækir Ásgrímur á æskuslóðirnar og síðan áfram austur í Skaftafellssýslur árin 1910, 1911 og 1912.
Afrakstur þessara ferðalaga birtist í fjölmörgum olíu- og vatnslitamálverkum þar sem listamaðurinn túlkar hina tæru birtu á meistaralegan hátt. Á sýningunni eru bæði olíu- og vatnslitamyndir frá árunum 1909 til 1928.
Sýningarstjórinn Rakel Pétursdóttir verður með leiðsögn um sýninguna föstudaginn 5. febrúar kl. 20.
Portrett af konum eftir Sigurjón Ólafsson ásamt öðrum verkum hans, höggvin í stein eða tré, þar sem hinni kvenlegu ímynd - das ewig weibliche - er lýst og hún tekur á sig mynd gyðjunnar. Sýningin er í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarrétt á Íslandi.
Sigurjón Ólafsson er meðal þekktustu portrettlistamanna Norðurlanda og eftir hann liggja rúmlega 200 andlitsmyndir. Flestar eru þær af karlmönnum í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu, en kvenportrett Sigurjóns eru síður þekkt, að undanskilinni myndinni sem hann gerði af móður sinni á 1938. Fyrir þá mynd hlaut Sigurjón hin eftirsóttu dönsku Eckersberg verðlaun árið 1939. Ríkislistasöfn þriggja Norðurlanda eiga eintök af þeirri mynd.Birgitta Spur, sýningarstjóri, verður með leiðsögn um sýninguna föstudaginn 5. febrúar kl. 21.