Sýningar í Listasafni Íslands 2025

9.1.2025

Sally Mann, Ponder Heart, 2000, Gelatin Silver Print, ©Sally Mann. Með leyfi Gagosian.

Nánd hversdagsins
Ljósmyndir eftir Ljósmyndir eftir Agnieszka Sosnowska, Joakim Eskildsen, Niall McDiarmid, Orra Jónsson og Sally Mann.

25.1.2025 — 4.5.2025

Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands. Verkin voru valin úr ákveðnum myndaröðum úr höfundarverki hvers og eins listamanns þar sem birtist djúp ástríða fyrir því að ljósmynda fólk á þeim stöðum sem standa því næst. Styrktaraðilar eru American Friends of the National Gallery of Iceland, Statens Kunstfond, Ny Carlsberg Fondet og bandaríska sendiráðið á Íslandi. Agnieszka Sosnowska og Orri Jónsson hlutu styrk frá Myndstef. Sýningarstjóri: Pari Stave.

Hildigunnur Birgisdóttir, Mjög stór tala, 2023, ljósmynd: Vigfús Birgisson

Þetta er mjög stór tala (Commerzbau)
Hildigunnur Birkisdóttir

22.2.2025 — 7.9.2025

Hildigunnur er kunn fyrir að gefa hinu smáa gaum í listsköpun sinni og varpa gagnrýnu ljósi á hnattræn framleiðslu- og dreifingarkerfi, sem og hið undarlega lífshlaup varningsins sem þessi kerfi skapa. Í verkum sínum dregur hún athyglina að litlum, einnota hlutum sem gjarnan eru fjöldaframleiddir fylgifiskar neyslumenningarinnar: umbúðum, verðmiðum, merkingum og útstillingareiningum. Hún fær þessum hlutum nýtt hlutverk en gildi þeirra og merking gjörbreytist þegar komið er út fyrir hið upprunalega samhengi þeirra. Sýningin var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2024 í sýningarstjórn Dan Byers. Hérlendis stýrir verkefninu Pari Stave.

Oleg Valdimar Borch (áður eignuð Jóhannes Kjarval), Rauðmaginn, án ártals, LÍ-ÞGIG 2

Ráðgátan um Rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir.

12.4.2025 — 14.9.2025

Í safneign Listasafns Íslands leynast nokkur fölsuð verk sem hafa borist safninu með margvíslegum hætti. Undanfarin misseri hafa starfsmenn safnsins rannsakað þessi verk og hefur þá margt forvitnilegt komið í ljós. Markmið sýningarinnar er að auka vitneskju almennings um málverkafalsanir og hvernig megi varast falsanir á markaði. Listaverkafalsanir eiga sér langa sögu en iðulega er markmið falsara að blekkja kaupendur í hagnaðarskyni.

Sýningarstjórar: Dagný Heiðdal og Ólafur Ingi Jónsson.

Christian Marclay, myndbrot úr The Clock, 2010; vídeóverk á einni rás með hljóði, 24 klukkutímar, © Christian Marclay, með leyfi Paula Cooper Gallery, New York.

Christian Marclay The Clock

2.5.2025 — 22.6.2025

The Clock (2010) eftir svissnesk-bandaríska listamanninn Christian Marclay er epískt, sólarhringslangt vídeóverk á einni rás með hljóði. Verkið hlaut Gullna ljónið á Feneyjatvíæringnum árið 2011 og er almennt talið eitt merkasta listaverk 21. aldarinnar, í senn djúpstæð hugleiðing um tímann og virðingarvottur við sögu kvikmyndalistarinnar. Verk Marclays er klippt saman úr mörg þúsund myndbrotum, ýmist svarthvítum eða í lit, sem hann safnaði á þriggja ára tímabili. Hvert myndbrot skírskotar til ákveðinnar tímasetningar, hvort sem er í gegnum samtal eða með vísun í tímamæli — klukku, úr, stundaglas, sólúr eða blikkandi útvarpsvekjara — sem í réttri tímaröð spannar heilan sólarhring, mínútu fyrir mínútu. Vídeóið er stillt á staðartíma og er því sjálft tímamælir.

Sýningin er styrkt af Pro Helvetia.
Sýningarstjóri: Pari Stave.

Kristján H. Magnússon, Vetur á Þingvöllum, 1932, LÍ-503

Endurlit
Kristján H. Magnússon

24.5.2025 — 14.9.2025

Málverk Kristjáns H. Magnússonar vöktu mikla hrifningu þegar hann geystist fram á myndlistarvettvanginn fyrir tæpum 100 árum. Verk hans vöktu ekki aðeins athygli hér á landi því hann hélt einnig sýningar í stórborgum austan hafs og vestan. Á Íslandi hlutu verk hans hins vegar blendnar viðtökur og í dag eru þau fáum kunn og nafn hans heyrist sjaldan í umræðunni um íslenska myndlist. Engu að síður er framlag hans til listasögunnar töluvert að vöxtum og áhugavert fyrir margra hluta sakir. Á væntanlegri yfirlitssýningu beinir Listasafn Íslands sjónum að verkum þessa skammlífa listamanns sem lést aðeins 34 ára að aldri árið 1937 eftir stuttan en áhugaverðan feril.

Sýningarstjóri: Dagný Heiðdal.

Kristján H. Magnússon, Forsíður dagatala Eimskips

Veggspjöld
Kristján H. Magnússon

24.5.2025 — 14.9.2025

Auk myndlistar lagði Kristján H. Magnússon stund á hagnýta grafíklist þegar hann var í framhaldsnámi í New York veturinn 1926–1927 og starfaði hann síðan á því sviði samhliða myndlistariðkun bæði í New York og Reykjavík. Reynsla Kristjáns af steinþrykki og auglýsingagerð nýttist honum sérstaklega við gerð auglýsinga og veggspjalda fyrir Eimskipafélag Íslands á árunum 1929–1934. Á þessum tíma blómstraði í New York hinn svokallaði Art deco-stíll í listiðnaði, hönnun og byggingalist. Sjá má áhrif Art deco í veggspjöldum Kristjáns sem verða til sýnis í Safnahúsinu á sama tíma og líta má málverk hans og teikningar við Fríkirkjuveg á sýningunni Endurlit. Sýningarstjóri: Guðmundur Oddur Magnússon

Jóhannes Kjarval, Af Norðurbrún yfir Fljótsdalshérað, 1950, LÍ-1530

Kjarval á Austurlandi
Jóhannes Kjarval
Skaftfell Art Center

5.7.2025 — 21.9.2025

Sýningin Kjarval á Austurlandi er samvinnuverkefni Skaftfells, myndlistarmiðstöðvar á Seyðisfirði og Listasafns Íslands. Á sýningunni verða verk sem Kjarval vann á Austfjörðum. Síðasta sumar var sýningin Framtíðarfortíð sett upp í samvinnu við Listasafn Ísafjarðar. Í tengslum við sýningarnar eru boðið upp á námskeið fyrir kennara í myndlæsi sem byggir á nýútgefnu námsefni safnins sem heitir Sjónarafl. Listasafnið hefur á síðustu árum eflt samstarf við landsbyggðina í formi sýninga, námskeiða og safnkennslu fyrir börn og ungt fólk.

Sýningarstjórar: Anna Jóhannsdóttir og Pari Stave.

Inuk Silis Høegh, Fire - The Green Land, 2021, 1-rásar vídeóverk, 34 mín.

The Green Land
Inuk Silis Høegh

5.7.2025 — 21.9.2025

The Green Land (2021) er tekið upp í og umhverfis Nuuk og Manisoq á Grænlandi. Verkið er sjónræn hugleiðing um landslag sem er í senn ósnortið og óstöðugt sökum inngripa mannsins og loftslagsbreytinga. Verkið er sýnt í stöðugri hringrás og hverfist um fjögur frumöfl — eld, jörð, vatn og loft — sem birtast sem óræð, græn nærvera í tímabundnum landslagsgjörningum. Þannig öðlast þessi frumöfl andlega vídd en listamaðurinn hefur lýst því sem svo að græni liturinn hlykkist um landslagið líkt og grænn ormur. Myndinni fylgir hljóðmynd eftir danska hljóðlistamanninn Jacob Kierkegaard en í verkum sínum rannsakar hann tónlistina í náttúruhljóðum sem hann fangar úr hafi, ís, eldstöðvum og andrúmsloftinu.

Sýningarstjóri: Pari Stave.

Steina Vasulka, Violin Power I, 1970–1978, vídeóverk, 10:04 mín. Birt með leyfi listamannsins, BERG Contemporary og Vasulka Foundation.

Tímaflakk
Steina Vasulka

4.10.2025 — 11.1.2026

Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur munu sameiginlega standa að viðamikilli sýningu sem opnuð verður í báðum söfnum samtímis í haust og tekur þá yfir tvö stærstu listasöfn landsins. Steina Vasulka er einn helsti frumkvöðull vídeólistar og nýmiðlunar í heiminum og brautryðjandi og áhrifamanneskja á sviði samtímalistar. Með verkum sínum hefur hún tengt saman vídeólist, tónlist og tækni á einstaklega skapandi og frjóan hátt. Sýningin er fyrsta stóra yfirlitssýningin á verkum Steinu hér á landi. Rakinn verður listrænn ferill Steinu frá upphafi til samtímans og birtir sýningin í heild því afar áhugaverða mynd af þróun tækni og listar á síðustu sex áratugum. Sýningin er skipulögð af MIT List Visual Arts Center í samvinnu við Buffalo AKG-listasafnið. Sýningarstjórar eru Natalie Bell, MIT List Visual Arts Center, og Helga Christoffersen, Buffalo AKG-listasafninu.

Hérlendis stýra verkefninu Markús Þór Andrésson og Pari Stave.

Frá síðustu hátíð Sequences árið 2023, Get ekki séð.

Sequences XII

11.10.2025 — 23.11.2025

Sequences er listamannarekin alþjóðleg myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár á mörgum stöðum í Reykjavík. Daría Sól Andrews mun skapa listræna umgjörð hátíðarinnar. „Hugmyndafræðin að baki Sequences XII tengist fagurfræði sem kallast „hæg list“ og felur í sér tengingar milli myndlistar og áhorfanda, að taka sér tíma með list, með hverju og einasta verki, og íhuga nýjar leiðir til að upplifa og meðtaka myndlist. Einblínt verður á verk sem eru unnin hægt og taka tíma að mótast og verða til, einnig listamenn sem vinna að einu verkefni yfir mörg ár eða áratugi. Áhersla verður lögð á samfélagslega uppbyggingu og tengingu, samveru, umræður og ábyrgð.“ — Daría Sól Andrews

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17