Í tilefni opnun sýningarinnar Flótti undan eldgosi – skissur og málverk eftir Ásgrím Jónsson þann 13.01.23

11.1.2024

Í Svefnrofum

Ein er sú berskusýn, sem vakir sífelldlega fyrir mér í endurminningunni. Ég stend úti í hlaðvarpa, tveggja ára gamall snáði, einn míns liðs og umvafinn hátíðlegri dul ljósaskiptanna. En skyndilega verður mér litið í norðaustur, og þá sé ég allt í einu, hvar eldglæringum bregður á loft, rauðum feiknstöfum, sem rista dimmt himinhvolfið, og jafnsnemma finn ég jörðina bifast undir fótum mér. Ég geri mér þess vitanlega enga grein, hvort ég er lengur eða skemur vitni að þessu torkennilega fyrirbæri, en hugur minn er á samri stund gagntekinn lotningarfullum ugg. Í hárbeittri skynjun þeirrar tegundar, sem stundum lýstur meðvitund mannsins í svefnrofunum, verður mér í fyrsta sinn á ævinni ljóst hver háski og hrikadýrð er samferða lífinu á þessari jörð.

              Það er ekki fyrr en fjörtíu árum síðar, að ég kemst að hinu sanna um þetta áhrifamikla fyrirbæri, sem geymzt hefur með mér alla tíð án þess að mér kæmi til hugar að leita á því skýringar. Eldglæringarnar og jarðhræringin áttu upptök sín í umbrotum eða sprengingum, sem urðu í Krakatindi, austnorður af Heklu, að áliðnum degi hinn 27. febrúar 1878. En sennilega er það umfram allt annað fyrir áhrif þessarar sviplegu reynslu, að ég tók í öndverðri bernsku að festa hugann öllum stundum við náttúruna og gerðist miklu skyggnari en ella á fegurð hennar, fjölbreytni og mikilleik. Það er þess vegna engin tilviljun, að nærfellt allar mínar fyrstu minningar eru tengdar einhverjum slíkum fyrirbrigðum á lofti eða láði og mörg þeirra standa mér ekki aðeins ljóslifandi fyrir hugskotsjónum enn í dag heldur vekja þau jafnvel hjá mér samskonar kenndir, ýmist ljúfar eða geigvænar, eins og fyrir meira en þrem aldarfjórðungum, þegar allt sem fyrir augun bar, átti beina leið til hjartans og var raunverulega miklu dýpri og hátignarfyllri merkingar en nokkuð það annað, er gerðist síðar á ævinni. Þannig geymi ég frá allra fyrstu berskuárunum ákaflega skýra og litsterka minningu um eldrauðan kvöldhimin, hryllilega fagran og yfirþyrmandi, og enn aðra minningu, eft til vill frá sama kvöldi um voðalega rauð norðurljós, sem fullorðna fólkið taldi stafa af blóðsúthellingum einhversstaðar úti í heimi.


Texti fenginn úr bókinni Ásgrímur Jónsson, Tómas Guðmundsson færði minningar hans í letur.

Útgáfa: Helgafell, 1962. Reykjavík.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17