„TIL AÐ SKRIFA GAGNRÝNI ÞARF VISST HUGREKKI”

13.3.2017

Listasafn Íslands og Listfræðafélag Íslands efna til málþings um myndlistargagnrýni í tilefni af yfirlitssýningu í Listasafni Íslands á verkum Valtýs Péturssonar (1919-1988), listmálara og myndlistargagnrýnanda. Valtýr var myndlistargagnrýnandi Morgunblaðsins frá 1952 til dauðadags árið 1988 og skrifaði á þeim tíma gagnrýni um 840 sýningar auk 60 greina um ýmis efni sem tengjast myndlist. Einnig birtust fjölmörg viðtöl við Valtý í hinum ýmsu fjölmiðlum og er yfirskrift málþingsins sótt í viðtal við hann í Tímanum, 27.03.1986.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan Valtýr skrifaði myndlistargagnrýni hefur margt breyst á sviði myndlistar og umfjöllunar um myndlist hér á landi. Listumhverfið hefur eflst og fjölmiðlaumhverfið hefur gjörbreyst, ekki síst með tilkomu netmiðla.

Þegar litið er yfir sviðið í dag vakna ýmsar spurningar, meðal annars:

Hvernig var staðan þá og hvernig er hún í dag?

Hver hefur hugrekki til að skrifa listgagnrýni í dag?

Um hvað snýst myndlistargagnrýni hér á landi, hvert er hlutverk hennar, hvar fer hún fram, hver markar stefnuna, hver er markhópurinn?

Þarf að bæta og efla myndlistargagnrýni í íslenskum fjölmiðlum? Á hvaða hátt og hvernig?

Á málþinginu verður leitað svara við þessum spurningum og öðrum sem kunna að vakna. 

Fundarstjóri: Dagný Heiðdal

 DAGSKRÁ 

12:00 - 12:20Jón B.K. Ransu: Valtýr Pétursson og myndlistargagnrýni.

12:20 - 12:35Aðalsteinn Ingólfsson: Reynsla listgagnrýnandans við lok 20. aldar og upphaf 21.aldar.

12:35 - 12:50Magnús Gestsson: Gagnrýni og sölugallerí fyrir myndlist: Litið til nokkurra nágrannalanda.

12:50 - 13:00Helga Óskarsdóttir: Netið - vettvangur fyrir myndlistargagnrýni. Reynsla grasrótarinnar.

13:00 - 13:10Einar Falur Ingólfsson: Morgunblaðið og myndlistargagnrýni. Stefnumörkun og markhópur.

13:10 - 13:20Magnús Guðmundsson: 365 miðlar og umfjöllun um menningu og myndlist. Stefnumörkun og markhópur.

13:20 - 13.30Þröstur Helgason: Menningarumfjöllun RÚV. Myndlist í útvarpi og sjónvarpi.

13:30 - 14:00 Umræður

 

 

 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17