Gæðastund
mið
12. mars
14:00—16:00
Þetta er mjög stór tala (Commerzbau)
12. mars kl. 14
Leiðsögn sérfræðings um sýninguna Þetta er mjög stór tala (Commerzbau) sem var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2024 en verður nú á Listasafni Íslands. Hildigunnur er kunn fyrir að gefa hinu smáa gaum í listsköpun sinni og varpa gagnrýnu ljósi á hnattræn framleiðslu- og dreifingarkerfi, sem og hið undarlega lífshlaup varningsins sem þessi kerfi skapa. Í verkum sínum dregur hún athyglina að litlum, einnota hlutum sem gjarnan eru fjöldaframleiddir fylgifiskar neyslumenningarinnar: umbúðum, verðmiðum, merkingum og útstillingareiningum. Hún fær þessum hlutum nýtt hlutverk en gildi þeirra og merking gjörbreytist þegar komið er út fyrir hið upprunalega samhengi þeirra.
Gæðastundir eru viðburðir sem ætlaðir eru eldri borgurum. Viðburðirnir eru samsettir úr sérsniðnum leiðsögnum og spjalli við sérfræðinga safnsins um myndlist, yfirstandandi sýningar og starfsemi.
Viðburðirnir skapa tækifæri fyrir gesti til að nálgast myndlistina og menningararf þjóðarinnar á margvíslegan hátt. Ávallt er boðið upp á kaffi og meðlæti á gæðastundum í Listasafni Íslands. Kaktus Espressobar á Fríkirkjuvegi styrkir verkefnið með bakkelsi.
Aðgangseyrir á safnið gildir.