Aðalbygging listasafnsins

Fræðslustarfsemi

Eitt af meginhlutverkum Listasafns Íslands er að miðla þekkingu um safnkost sinn og starfsemi til samfélagsins.

Markmið safnsins er að móta jákvætt og skapandi umhverfi með virkri fræðslu sem býður gestum upp á einstaka reynslu þar sem þeir geta aukið við þekkingu sína á myndlist, öðlast innsæi og áttað sig á samhengi nútíðar og fortíðar. Fjölbreyttar aðferðir eru nýttar til að rýna nánar í listaverkin, vekja umræðu um þau og efla ímyndunaraflið.

Með vandaðri fræðslu- og viðburðadagskrá er byggir á frjóu og skapandi starfi viljum við ná til sem flestra landsmanna, mismunandi menningar- og aldurshópa, og stuðla þannig að aukinni lífshamingju og sátt í samfélaginu.

Kjarni fræðslustefnu safnsins er að dýpka skilning almennings á myndlist og safnastarfi og gegna um leið skapandi hlutverki í menningu samtímans.

Kjarni fræðslustefnu safnsins er að dýpka skilning almennings á myndlist og safnastarfi og gegna um leið skapandi hlutverki í menningu samtímans.

Almennir hópar

Við bjóðum upp á sérsniðnar leiðsagnir fyrir almenna hópa eftir samkomulagi, t.a.m. námskeiðahópa, vina- eða starfsmannahópa og ferðamenn.
Hægt er að panta leiðsögn fyrir hópa og félagasamtök og er þá greitt fyrir leiðsögn samkvæmt gjaldskrá Listasafns Íslands.

Leiðsögn virka daga kr. 26.000 (án aðgangseyris), á opnunartíma um helgar kr. 41.500 (án aðgangseyris).

Leiðsögn utan opnunartíma kr. 72.500 (án aðgangseyris) 25 eða færri gestir. Leiðsögn utan opnunartíma kr. 93.000 (án aðgangseyris), fleiri en 25 gestir.

Táknmálstúlkun er veitt samkvæmt samkomulagi og komið til móts við einstaklinga og hópa fólks með sérþarfir. Aðgengi fyrir hreyfihamlaða er gott.
Sjónleiðsögn fyrir blinda og sjónskerta er veitt samkvæmt samkomulagi.

Upplýsingar í síma 515 9600 milli kl. 10 — 17 og á netfanginu mennt@listasafn.is

Fullorðinsfræðsla

Listasafn Íslands skipuleggur fjölbreytta viðburða- og fræðsludagskrá í tengslum við allar sýningar í safninu svo sem málþing, samtal við listamenn, sýningarstjóra og fræðimenn, fyrirlestra og almennar leiðsagnir. Viðburðirnir skapa tækifæri fyrir gestina til að nálgast myndlistina á margvíslegan hátt; fræðilegum forsendum eða með óformlegum hætti, bæði í safninu sjálfu og utan þess. Einnig býður safnið upp á leiðsögn og safnaheimsóknir fyrir almenna hópa.

Listir, hugarefling og vellíðan: Hittumst á safninu

Listir, hugarefling  og vellíðan: Hittumst á safninu – er sérsniðin dagskrá fyrir fólk með heilabilun.
Síðustu ár hefur listasafnið lagt sig fram um að þjónusta þennan samfélagshóp, en dagskráin fer fram í samvinnu við sérhæfða dagþjálfun. Í heimsóknunum er leitast við að skapa ánægjulega samverustund á safninu.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Dr. Halldóru Arnardóttur, listfræðing ásamt Listasafni Reykjavíkur, Borgarsögusafni, Þjóðminjasafn Íslands og Hafnarborg sem bjóða upp á samskonar dagskrá.

Hægt er að fá nánari upplýsingar með því að senda póst á netfangið marta.m.jonsdottir@listasafn.is

Skólahópar

Listasafn Íslands býður upp á skemmtilega möguleika í safnafræðslu með mismunandi efnisnálgun fyrir nemendur af öllum skólastigum, skólunum að kostnaðarlausu. Tekið er mið af aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla þar sem það á við. Tekið er á móti nemendum grunn- og framhaldsskóla, auk háskóla og börnum á forskólaaldri, virka daga eftir samkomulagi.
Listasafn Íslands fagnar nemendahópum á öllum aldri sem vilja koma í söfnin með eða án leiðsagnar safnakennara. Mælt er með því að hópar sem komi á eigin vegum láti vita af komu sinni.

Vinsamlegast bókið leiðsagnir með góðum fyrirvara á netfangið mennt@listasafn.is

Krakkaklúbburinn Krummi

Krakkaklúbburinn Krummi stendur fyrir fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá í hverjum mánuði þar sem kátum krökkum er boðið að fræðast um listaverkin í safneign Listasafns Íslands, skapa listaverk og leika sér í nærandi umhverfi.

Krakkaklúbburinn Krummi er fyrir börn á öllum aldri!

Með stofnun krakkaklúbbsins vill Listasafn Íslands veita börnum og fjölskyldum þeirra tækifæri til þess að njóta góðra stunda saman á safninu. Dagskráin er vönduð og öllum er velkomið að taka þátt, sér að kostnaðarlausu.

Viðnám

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17