Kennaraklúbbur Listasafns Íslands

Kennaraklúbbur Listasafns Íslands hefur göngu sína

Kennarar allra skólastiga og allra skóla fá tækifæri til að hittast reglulega á Listasafni Íslands og kanna hvernig hægt er að nýta safnið og fjársjóði þess sem efnivið í kennslu og safnhúsin þrjú sem námsvettvang.  Kennarar gegna lykilstöðu í menntun barna, ungmenna og annarra og þess vegna finnst okkur mikilvægt að setja af stað skemmtilegan og fræðandi klúbb þar sem fræðsludeild safnsins getur verið í virku samtali við kennara. Við stefnum á að kynna útgáfur og halda viðburði sem henta kennurum allra námsgreina og um leið opna fyrir virka hlustun á þörfum skólakerfisins innan frá. Öll sem kenna, hafa kennt eða hafa áhuga á kennslumálum eru velkomin í klúbbinn!

Hægt er að skrá sig í klúbbinn með nafni og netfangi á mennt@listasafn.is

Dagskrá vorannar 2025

Örnámskeið í undirbúningsviku kennara
Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi


Dagsetningar:

5. febrúar kl. 10–12
Staðnámskeið í Safnahúsinu við Hverfisgötu
13. febrúar kl. 14–16
Fjarnámskeið á netinu
20. mars kl. 10–12  
Fjarnámskeið á netinu
12. maí kl. 14–16  
Staðnámskeið í Safnahúsinu við Hverfisgötu

Sjónarafl miðar með markvissum hætti að því að tengja kennslu í myndlæsi og listasögu við skólakerfið og auka þekkingu nemenda á menningarsögu og menningararfi þjóðarinnar. Þjálfun í myndlæsi eykur einnig hæfni í tjáningu, virkri hlustun, hugtakaskilningi og gagnrýnni hugsun. Á námskeiðinu fá kennarar kynningu og þjálfun í aðferðum myndlæsis þar sem unnið er markvisst með umræðu- og spurnaraðferð.
Myndlæsisþjálfunin fer fram með því að styðjast við valin verk úr safneign Listasafns Íslands og er fræðsluefnið sjálft unnið sérstaklega með kennara í huga.

Námskeiðsgjald er 4.700 kr. og innifalin í því er kennslubókin Sjónarafl. Greitt er á staðnum.

Athugið að takmarkaður fjöldi kemst á námskeiðið og skráning er því nauðsynleg í gegnum netfangið mennt@listasafn.is

Art Can Heal (opinn viðburður)
23. janúar kl. 14–16
Staðsetning: Safnahúsið við Hverfisgötu
Málþing til heiðurs Sigríði Björnsdóttur listmeðferðarfræðingi. Meðal fyrirlesara verða Ágústa Oddsdóttir, Egill Sæbjörnsson og Abigail Ley.
Ingibjörg Jóhannsdóttir safnstjóri stýrir pallborðsumræðum.
Nánari dagskrá auglýst síðar.
Málþingið fer fram á ensku.

Leiðsögn listamanns – Hildigunnur Birgisdóttir
27. mars kl. 17
Staðsetning: Fríkirkjuvegur 7

Leiðsögn Hildigunnar Birgisdóttur fyrir kennara um sýninguna Þetta er mjög stór tala (Commerzbau). Sýningin ögrar á gáskafullan hátt fyrirfram gefnum hugmyndum um fegurð, virði og notagildi. Hildigunnur Birgisdóttir er kunn fyrir að gefa hinu smáa gaum í listsköpun sinni og varpa gagnrýnu ljósi á hnattræn framleiðslu- og dreifingarkerfi, sem og hið undarlega lífshlaup varningsins sem þessi kerfi skapa. Í verkum sínum dregur hún athyglina að litlum, einnota hlutum sem gjarnan eru fjöldaframleiddir fylgifiskar neyslumenningarinnar: umbúðum, verðmiðum, merkingum og útstillingareiningum.

„Skemmtilegt er myrkrið“: Draugasögur í Listasafni Íslands
8. maí kl. 16
Staðsetning: Safnahúsið við Hverfisgötu

Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur segir frá draugum og þeim ólíku gerðum drauga sem finnast á Íslandi, svo sem uppvakningum, afturgöngum, útburðum og fépúkum. Sagðar verða nokkrar vel valdar draugasögur. Þá kennir Dagrún okkur ýmis praktísk atriði, eins og hvernig má þekkja drauga á förnum vegi, hvernig er hægt að vekja þá upp og hvernig maður losnar undan ásóknum þeirra. Öll velkomin, sem þora!

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17