Safnaþrennan – skapandi ferðalag um menningararfinn
Fræðslusérfræðingar höfuðsafnanna; Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands, hafa tekið höndum saman og þróað nýja fræðsluleið með það að markmiði að tengja söfnin saman og nýta þau sem námsvettvang.
Verkefnið snýst um að hvetja nemendur til að koma auga á þætti sem móta okkur út frá samfélagi, listum og náttúru.
Hér er um að ræða þverfaglegt nám þar sem höfuðsöfnin sameina sinn safnkost, sýningar og þekkingu. Í gegnum þessa fræðsluleið dýpka nemendur og efla menningar- og náttúrulæsi sitt.
Nemendur vinna sjálfstætt með höfuðsöfnin sem námsvettvang og eru hvött til að beita gagnrýninni og skapandi hugsun. Þau uppgötva safnkostinn og þá sögu sem hann segir um hvernig samfélagið okkar hefur mótast af ólíkum öflum.
Fyrirkomulag
Safnaþrennan stendur yfir í nokkrar vikur. Í upphafi heimsækja safnkennarar nemendur í skólastofuna og kynna söfn sín, yfirstandandi sýningar, starfsemi safnanna og þá óteljandi möguleika sem þar bjóðast til að uppgötva eitthvað nýtt, tengja og skilja. Því næst mæta nemendur í söfnin. Heimsókn á hvert safn varir í tvær til þrjár kennslustundir og gera þarf ráð fyrir svipuðum tíma í verkefnavinnu eftir að heimsókn líkur. Nemendur skipa sér í hópa og nálgast viðfangsefnið saman í gegnum samtal sín á milli.
Stoðin í verkefninu er orðalisti með hugtökum sem tengja saman safnkost og sýningar safnanna þriggja. Dæmi um orð af listanum eru fléttur, eldvirkni, vatn, rætur og mynstur svo fáein séu nefnd. Listinn er ekki tæmandi en er hugsaður sem rauður þráður fyrir nemendur til að vinna eftir. Með því að leggja hann fram er námið sett í hendur nemenda sem styðja sig við valin orð til að tengja saman efni safnanna þriggja og sjá þar með menningararfinn í nýju ljósi. Þannig er ábyrgðin á vali á viðfangsefni í höndum nemendahópanna sem þurfa að beita skapandi og gagnrýninni hugsun til að nálgast efnið.
Öllum skólastigum er boðin þátttaka í Safnaþrennunni og hægt er að bóka í gegnum bókunarsíðu safnsins hér.