Bessastaðir
Úrval íslenskrar myndlistar á Bessastöðum
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, hefur í samvinnu við Listasafn Íslands endurnýjað það úrval íslenskrar myndlistar sem prýðir Bessastaði. Allt frá lýðveldisstofnun hefur Listasafn Íslands lánað listaverk til Bessastaða, sem eiga sér mikilvægan sess í menningarsögu landsins auk þess að vera aðsetur forseta Íslands. Þúsundir gesta, jafnt íslenskra sem erlendra, heimsækja forsetasetrið á ári hverju og vekja verk íslenska myndlistarmanna þar jafnan mikla athygli. Þá er húsið jafnan opnað almenningi að minnsta kosti tvisvar á ári, á Safnanótt og Menningarnótt.
Samtals 28 íslensk verk úr safnkosti Listasafns Íslands prýða nú Bessastaði að loknum breytingum, auk nokkurra verka sem eru í eigu embættisins.
Við valið á nýjum listaverkum fyrir Bessastaði var haft í huga að færa aukna breidd í þá list sem þar er til sýnis. Þannig spanna verkin nú lengra tímabil í íslenskri listasögu en áður auk þess sem verkum eftir myndlistarkonur hefur verið fjölgað til jafns við karla.
Nína Tryggvadóttir 1913-1968
Abstrakt, 1962
Móttökusalurinn
Í móttökusal Bessastaða er nú listaverk eftir Nínu Tryggvadóttur í öndvegi, en Flugþrá Jóhannesar Kjarvals fær enn að njóta sín í salnum, að viðbættu verki hans Blóm í landslagi. Þá er verkið Vindstroka eftir Kjarval enn á sama stað í bókhlöðunni. Önnur ný verk í móttökusalnum eru eftir Kristínu Jónsdóttur, Júlíönu Sveinsdóttur, Jón Stefánsson, Kristján Davíðsson, Georg Guðna Hauksson og Eggert Pétursson. Öll eiga þau það sameiginlegt að leita innblásturs í íslenskri náttúru þótt hvert og eitt geri það með afar ólíkum hætti.
Jóhannes Kjarval 1885-1972
Flugþrá, 1935-1954
Jóhannes Kjarval 1885-1972
Blóm í landslagi, 1935
Suðurstofan
Í Suðurstofu Bessastaða eru verk eftir listafólk sem öll hafa unnið með myndheim abstrakt listar og spanna þau tæplega 100 ára tímabil. Hið elsta er eftir Finn Jónsson sem var frumkvöðull í abstraktlist á Íslandi. Meðal verka á fyrstu sýningu hans, árið 1925, var verkið Óður til mánans sem nú má sjá á Bessastöðum. Yngsta verkið í Suðurstofu er Sveigja frá árinu 2023 eftir Kristínu Morthens sem er fædd árið 1992. Aðrir listamenn í Suðurstofu eru Svavar Guðnason, Nína Tryggvadóttir, Guðmunda Andrésdóttir og Kristján Davíðsson.
Finnur Jónsson 1892-1993
Óður til mánans, 1925
Kristín Morthens 1992-
Sveigja, 2023
Borðstofan
Borðstofa Bessastaða er helguð úrvali verka sem innblásin eru af íslenskum atvinnuháttum. Í verkum eftir Kristínu Jónsdóttur, Þorvald Skúlason og Jón Engilberts má sjá fólk við ýmis störf sem tengjast þéttbýlismenningu. Sveitarómantíkin svífur hinsvegar yfir vötnum í verkum Louisu Matthíasdóttur og Jóhanns Briem, sem einnig prýða borðstofuna.
Kristín Jónsdóttir 1888-1959
Við Þvottalaugarnar, 1931
Jóhann Briem 1907-1991
Mislitar kýr, 1966
Thomsenstofan
Í Thomsenstofu voru valin verk eftir þrjá frumherja íslenskrar myndlistar, þá Þórarinn B. Þorláksson, Ásgrím Jónsson og Jóhannes Kjarval. Þar má einnig sjá verk í eigu Bessastaða eftir danska listamanninn Emanuel Larsen sem var málað árið 1847. Loks ber að nefna höggmyndina Móðir og barn eftir Tove Ólafsson sem gestir Bessastaða geta notið þegar gengið er um blómaskálann inn í móttökusal.
Tove Ólafsson 1909-1992
Móðir og barn, 1946