Flugþrá

1935-1954

Jóhannes Kjarval 1885-1972

Heiti verksins leiðir athyglina að ungri konunni sem hallar undir flatt, horfir til himins og styður sig við væng fuglsins. Í myndlist hefur konan oft verið tákngerð sem jarðbundin vera sem setur afkvæmi sín í forgang. Rauður strengur sem minnir á naflastreng tengir himinn og jörð eins og því til áréttingar að það er konan sem elur börnin og er eilíflega bundin því hlutverki sínu. Við túlkun verksins er nærtæk gríska goðsagan um Ledu og svaninn, vinsælt myndefni listmálara gegnum tíðina allt frá tímum endurreisnar. Í sögunni vitjar Seifur Ledu í svansham en Leda var heitin Tyndareusi, konungi Spartverja. Umrædd Leda fæddi, eða verpti síðan tveimur eggjum. Það er enginn slíkur erótískur undirtónn í verki Kjarvals en þó að íslensk nátttúra hafi verið hans aðal viðfangsefni fór hann létt með að skálda myndir og mála sögur úr eigin hugarheimi. Táknmerking svansins er margslungin og gefur listamaðurinn áhorfandanum svigrúm til eigin merkingarsköpunar. Málverkið hverfist um sjálft sig, myndbyggingin er lokaður heimur innrammaður með gulllit sem tákngerir óendanleikann í helgimyndum. Hér teiknar Kjarval með hvíta litnum sem hann beitti með afar sérstökum hætti í mörgum þeim skáldlegu málverkum sem eftir hann liggja. Léreftið er stagað saman eins og flöturinn hafi ekki verið nægilega stór fyrir fuglinn og nakta konuna sem tengjast með þessum táknræna hætti. RP

 

 

LÍ-1024
  • Year1935-1954
  • TypeMálaralist - Olíumálverk
  • Size145 x 156 cm
  • SummaryFugl, Maður
  • Main typeMyndlist/Hönnun
  • MaterialOlíulitur

Kristín G. Guðnadóttir, Kjarvalsbók, 2005.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17