Uppstilling

1950

Kristín Jónsdóttir 1888-1959

LÍ-1222

Kristín Jónsdóttir, fædd að Arnarnesi við Eyjafjörð 1888, var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka prófi frá Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1916. Þar hafði hún verið við nám í málaralist í fimm ár en samtíða henni í náminu voru aðrir íslenskir myndlistarmenn, þau Jóhannes S. Kjarval, Guðmundur Thorsteinsson (Muggur) og Júlíana Sveinsdóttir, sem var ásamt Kristínu fyrst kvenna hér á landi til að gera myndlistina að ævistarfi. Árið 1924 fluttist Kristín aftur til Íslands með manni sínum Valtý Stefánssyni og dótturinni Helgu. Hún ferðaðist um landið til að mála íslenska náttúru og til eru margar áhugaverðar ljósmyndir af Kristínu þar sem hún málar úti, til dæmis við Gullfoss og á Akureyri. En það eru ekki síður kyrralífsmyndir en landslagsmyndir Kristínar sem marka henni sérstöðu og þá vegna litrófsins og stemninganna, birtunnar og formrænnar byggingar. Það voru fjölskylduaðstæðurnar, tvær ungar dætur og húshald, sem leiddu til þess að hún þurfti að einbeita sér að því að mála inni við og þá aðallega uppstillingar og blómamyndir, sem hún er hvað þekktust fyrir. Kristín hélt á ferli sínum fjölda einkasýninga og var þátttakandi í mörgum samsýningum. Hún lést í Reykjavík árið 1959.

  • Year1950
  • TypeMálaralist - Olíumálverk
  • Size60 x 75 cm
  • SummaryÁvöxtur, Blóm, Blómavasi, Borð, Bók, Kyrralífsmynd, Uppstilling
  • Main typeMyndlist/Hönnun
  • MaterialOlíulitur

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17