Temma í garðstól

1961

Louisa Matthíasdóttir 1917-2000

LÍ-1257

Louisa Matthíasdóttir bjó og starfaði erlendis mestan hluta ævi sinnar. Hún skapaði stórbrotin málverk þar sem landslag og litadýrð íslenskrar náttúru, fjöll og græn engi, búfé og útlínur jökla birtast í myndsýn hennar. Leit hennar að birtunni er sem rauður þráður í verkum hennar. Myndmálið er auðþekkjanlegt, tærir og sterkir litir skapa skörp birtuskil hvort heldur er í náttúrumyndum, borgarlandslagi eða uppstillingum úr heimilislífinu. Kröftugur og djarfur stíll Louisu ber vitni óvenju skarpri tilfinningu fyrir litasamsetningu. Málverk hennar er agað og með hreinum, afmörkuðum flötum gefur hún skýra mynd án alls prjáls, svo eftir standa afmarkaðir fletir, kristaltær kjarni eða hugmynd sem hún vann út frá. Louisa stundaði nám í auglýsingateiknun við Den Tekniske Selskabs Skole í Kaupmannahöfn 1934–1937 og listnám í París undir handleiðslu Marcels Gromaire 1938–1939. Í París lágu leiðir hennar og Nínu Tryggvadóttur saman og samferðamenn áttu þær eftir að vera, fjarri heimahögunum sem eru þó svo nálægir og stór hluti af list beggja, þó með ólíku móti sé. Nína og Louisa voru fastagestir í Unuhúsi áður en þær héldu til Ameríku en Unuhús var griðastaður reykvískra skálda og listamanna. Þar mótuðust hugmyndir heillar kynslóðar á miklum umbrotatímum og vinkonurnar voru mikilvægir þátttakendur í þeirri gerjun. Nína fetað sig smám saman inn á braut abstraktlistarinnar en Louisa hélt áfram að þróa list sína innan fígúratíva málverksins. Þó færðist hún í átt til abstraktlistar þar sem fletirnir urðu einfaldari og myndefnið þokaði fyrir flatakenndu litaspili án fígúratívra smáatriða. Louisa málaði gjarnan götumyndir frá gömlu Reykjavík og íslenskt landslag en viðfangsefni fann hún einnig á heimilinu, í portrettum af fjölskyldumeðlimum og vinum eða hlutum af heimilinu. Louisa málaði jafnframt fjölmargar sjálfsmyndir og var glíman við sjálfsmyndina að vissu leyti einkennandi fyrir feril hennar.

  • Year1961
  • TypeMálaralist - Olíumálverk
  • Size106,5 x 152 x 4,5 cm
  • SummaryGarðstóll, Mannamynd
  • Main typeMyndlist/Hönnun
  • MaterialOlíulitur

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17