Konur horfa til Heklu

1960

Jón Stefánsson 1881-1962

Landslagsmyndir Jóns voru mannlausar í fyrstu, en er leið á fjórða áratuginn fær maðurinn þar rúm, oft þar sem hann stendur andspænis stórbrotinni náttúrunni. Þegar Jón málaði mynd sína af konunum tveim, sem horfa til Heklu, hafði orðið breyting á list hans í átt til meiri sundurgreiningar í lit og formi. Myndskipunin virðist hins vegar vera hin sama og áður. Enn er sjónarhornið vítt og myndin byggð á þrem stigum inn í myndrýmið, með fjallið í baksýn. Í forgrunni standa tvær konur, önnur lengst til vinstri, hin til hægri, og snúa baki við áhorfandanum, þar sem þær standa grafkyrrar og horfa í átt til fjallsins eins og heiti verksins gefur til kynna. Mynd landsins er ekki eins formföst og áþreifanleg og í eldri myndum Jóns heldur leyst upp með andstæðum litadeplum. Úr blámanum í fjarska rís draumkennd mynd fjallsins og er sem konurnar horfi á fjallið bergnumdar. Hér skynjar áhorfandinn mátt náttúrunnar, ekki aðeins í stærð hennar heldur einnig seiðmagni sem listamaðurinn hefur laðað fram með skynrænni litameðferð. Í þessu verki má því finna andblæ djúprar íhygli sem leiðir hugann að verkum rómantískra málara á síðustu öld þar sem maðurinn er oft sýndur hugleiða hið mikla sköpunarverk sem náttúran er. Listasafn Íslands keypti málverkið árið 1966. (Júlíana Gottskálksdóttir, „Umfjöllun um tíu meginmyndir Jóns Stefánssonar í Listasafni Íslands“, Jón Stefánsson 1881-1962 (Listasafn Íslands: Reykjavík, 1989).)

LÍ-1329
  • Ár1960
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð73 x 92 cm
  • EfnisinntakFjall, Kona, Landslag
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17