Fisksölustúlka

1886

Anna Kristine Ancher 1859-1935

LÍ-25

Verkið Sjómannsstúlka eftir Önnu Ancher er hluti af stofngjöf Listasafns Íslands, gefið af Önnu árið 1886 þegar hún var virtur listmálari í heimalandinu. Sjómannsstúlka var fyrsta pastelmyndin og jafnframt eitt fyrsta verkið eftir konu sem Listasafn Íslands eignaðist. Stúlkan á myndinni er Maren Sofie Olsen, nágranni Önnu í bænum Skagen á Jótlandi. Anna Ancher (fædd Brøndum) ólst upp á gistihúsi bæjarins, þangað sem hópur listmálara fór að venja komur sínar á áttunda áratug nítjándu aldar og myndaðist listamannanýlenda í Skagen, fjarri iðnvæðingu og heimsins glaumi. Anna og eiginmaður hennar Michael Ancher, sem einnig gaf safninu verk um svipað leyti, voru meðal þeirra Skagen-listamanna sem leituðu viðfangsefna í fábrotnu hversdagslífi í skauti náttúrunnar og í einstakri birtu sem einkennir staðinn, og túlkuðu í anda raunsæisstefnunnar. Sérstaða verka Önnu felst í þeirri kyrrð og nánd sem einkennir myndheim hennar og má m.a. rekja til 17. aldar málaralistar í Hollandi, ekki síst til innimynda Delft -skólans. Áhrifin lýsa sér í næmri, lágstemmdri, en jafnframt blæbrigðaríkri meðferð birtu og lita. Staðarkennd Önnu og innsýn í tilveru alþýðufólks mótar einnig túlkunardýpt verksins þar sem náttúruleg birtan fellur á alvörugefið andlitið og skapar andrúmsloft kyrrlátrar reisnar og íhygli. Maren Sofie horfir ekki út úr myndinni, heldur inn á við og þannig, í samspili ytri veruleika og innra lífs, gæðir listamaðurinn verkið andlegu inntaki.

  • Ár1886
  • GreinMálaralist - Pastelmyndir
  • Stærð36 x 24 cm
  • EfnisinntakAndlit, Eyrnalokkur, Stúlka
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniHörstrigi, Pastellitur
  • Merking gefanda

    Gjöf listakonunnar 1886

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17