Ein á gangi í skóginum

1898

Bertha Wegmann 1847-1926

LÍ-350

Bertha Wegmann var á sínum tíma meðal vinsælustu portrettmálara Danmerkur. Hún var annáluð fyrir að nálgast myndefni sitt af næmni og djúpu innsæi í sálarlíf manneskjunnar. Undanfarið hafa rannsóknir varpað nýju ljósi á verk hennar og ungu, bláklæddu konuna sem hér sést á gangi í skógi. Konan er talin vera sænski rithöfundurinn Toni Möller sem Bertha kynntist árið 1892. Síðar áttu þær eftir að taka upp ástarsamband. Unga konan horfir beint á málarann, alvörugefin á svip; inn í bókina sem hún ber í vinstri hendi hefur blómi verið stungið. Frjálslegur kjóllinn bendir til þess að hún klæðist ekki lífstykki, eins og tíðkaðist á þessum tíma, sem er ef til vill til merkis um tíðaranda í mótun og uppgang kvenfrelsishreyfingarinnar um aldamótin 1900. Málverkið er ekki sérpantað af einhverjum betriborgara heldur er það innileg mynd af manneskju sem tilheyrði vinahópi listakonunnar. Líkt og titillinn gefur til kynna eru listakonan og viðfangið einar úti í náttúrunni þar sem þær horfast í augu. Við nánari skoðun má sjá fangamark listakonunnar, BW, á trjábol í bakgrunninum.

Í safneign Listasafns Íslands er að finna fjögur málverk eftir Berthu Wegmann sem safnið fékk að gjöf frá dánarbúi listakonunnar, en hún ánafnaði nokkrum norrænum listasöfnum verk. Bertha Wegmann fæddist í Sviss en lagði stund á framhaldsnám í Þýskalandi og varði miklum tíma í París. Hún var ein þónokkurra norrænna kvenna sem þangað fóru í leit að meira frelsi og betri menntun en stóð þeim til boða heima fyrir.

  • Ár1898
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð225 x 135 cm
  • EfnisinntakSkógur, Stúlka, Tré
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur
  • Merking gefandaDánargjöf Berthu Wegmann, afhent safninu 1929.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17