Adam og Eva í Paradís
1923
Muggur 1891-1924
Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, fæddist á Bíldudal við Arnarfjörð. Hann ólst upp á menningarlegu kaupmannsheimili þar sem gamlir íslenskir siðir mættu danskri borgaramenningu. Árið 1903 flutti fjölskyldan til Kaupmannahafnar og var Muggur við nám við Konunglega listaháskólann árin 1911–1915 eftir að hafa sótt undirbúningsnám í Teknisk Selskabs Skole á árunum 1908–1911. Á fullorðinsárum ferðaðist hann víða um heim en líf og list Muggs voru ofin saman í órofa heild, og varpa teikningar hans úr daglegu amstri gjarnan gamansömum blæ á lífið. Verk hans bera í sér ljóðrænan og angurværan tón og eru öllu rómantískari en verk samtímamanna hans. Hann sótti bæði í samtíma sinn og þjóðsagnaarfinn og einkennist myndefnið oft af miklum gáska þótt stundum sé frásögnin drungaleg. Á íslensku samsýningunni, Fem islandske Malere, í sýningarsal Georgs Kleis árið 1920 átti Muggur 80 verk, klippimyndir, teikningar, vatnslitamyndir, grafíkverk, brúður og útsaum en hann vann auk þess með olíu, pastel, gerði pennateikningar, blýants- og krítarmyndir. Á Íslensku listsýningunni á Charlottenborg 1927 voru 38 verk eftir hann og höfðu nokkur þeirra verið sýnd á sýningunni Fem islandske Malere árið 1920. Muggur lést árið 1924 aðeins 32 ára að aldri. Þótt þáttur hans geti ekki talist stór í íslenskri listasögu, skapar fjölhæfni hans og nútímalegt viðhorf honum sérstakan sess.