Mælifell, Snæfellsnesi
1951
Júlíana Sveinsdóttir 1889-1966
Júlíana Sveinsdóttir bjó lengst af í Danmörku þar sem hún lærði ekki aðeins listmálun við Konunglega listaháskólann, heldur einnig mósaík- og freskugerð. Hún sigldi tvítug til náms 1909, hafði þá fengið einhverja tilsögn hjá Þórarni B. Þorlákssyni, og hóf fyrst undirbúningsnám við einkaskóla Gustavs Vermehren og einkaskóla Agnesar Jensen áður en hún komst inn í Konunglega listaháskólann árið 1912. Júlíana útskrifaðist úr málaradeild skólans árið 1917 og sýndi fyrst opinberlega í Danmörku árið eftir. Það var þó ekki fyrr en 1926 að hún hélt einkasýningu á Íslandi, en þá sýndi hún bæði í Vestmannaeyjum og í Reykjavík. Heimahagarnir orkuðu alltaf sterkt á hana, enda kom hún heim flest sumur og málaði myndir, og þannig voru tengslin við Ísland stöðugt lifandi og áttu sér birtingarmynd í myndum hennar. Viðfangsefnum Júlíönu hefur verið skipt upp í þrjá meginflokka, það er landslag, mannamyndir og uppstillingar. Í nálgun hennar eru það blæbrigði lita og ljóðræn tilfinning sem hafa þótt einkennandi og skapað henni sérstöðu í íslenskri landslagslist. Júlíana byrjaði að vefa nytjaklæði á þriðja áratugnum en tók miðilinn síðar listrænni tökum í gerð formfagurra textílverka. Hún varð brátt mikilsmetinn vefari þótt hún væri ætíð talin fremri sem listmálari. Til að mynda fékk hún gullverðlaun fyrir vefverk sín á Þríæringnum í Mílanó árið 1951. Hún var einna fyrst íslenskra kvenna til að gera myndlist að ævistarfi og tók snemma virkan þátt í ýmsum samtökum, til dæmis var hún meðal stofnenda Bandalags íslenskra listamanna. Árið 1955 var hún kjörin ævilangt í stjórn Konunglega listaháskólans í Kaupmannahöfn.