Málverk

1995

Kristján Davíðsson 1917-2013

Að skynja umhverfið eins og opin barnsál eða með svipuðum hætti og frumbyggjar sem lifa í tengslum við náttúruna er áskorun fyrir myndlistarmann fæddan á vesturlöndum. Slíka viðleitni má sjá í verkum áhrifavalda í list Kristjáns Davíðssonar svo sem Paul Klee og Jean Dubuffet. Þessi áhrif felast m.a. í bernsku sakleysi og frjálsræði í meðferð hlutfalla. Þá má einnig rekja aðferðafræði Kristjáns til bjartsýnistrúar Deweys. Kristján var við nám við Barnes foundation 1945-47 og varð hann fyrir áhrifum frá amerískum abstrakt expressjónisma en einnig frá evrópskum listamönnum sem stofnunin varðveitir og Dr. Albert V. Barnes viðaði að sér á árunum 1912 – 1951. Þar er að finna mörg meistaraverk impressjónistanna frönsku auk listar frumbyggja Ameríku og Afríku. Kristján átti þátt í að losa um íslensku strangflatarlistina á sjötta áratugnum og innleiða ferska strauma sem rekja má til dvalar hans vestanhafs og í París. Verk hans endurspegla þrá mannsins eftir að verða eitt með náttúrunni, líkamlega og andlega. Hin tilfinningalega tjáning hans með pensilskriftinni eða fingrunum eða jafnvel trjágrein endurspeglar sýn hans og tilfinningar til náttúrunnar. Það þarf ekki sífellt að myndgera fjöllin blá í fjarska heldur má það alveg eins vera jarðarsvörðurinn við fætur okkar sem vekur áhuga hans. Hvítur striginn leikur með og mörkin milli teikningar og málverks verða óljós. RP

LÍ-5742
  • Ár1995
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð120 x 100 cm
  • EfnisinntakAbstrakt
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur, Strigi

Kristján Davíðsson. Ritstj. Halldór Björn Runólfsson. Listasafn Íslands 2007. Mynd bls. 79.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17