Úr landslagi
1997
Eiríkur Smith 1925-2016
Eiríkur Smith er einn af frumkvöðlum strangflatarmálverksins hérlendis og málaði hann í anda strangflatarmálverksins frá byrjun sjötta áratugarins en sneri sér að ljóðrænum abstrakt-expressjónisma upp úr 1960. Þó verkin séu abstrakt, túlka þau náttúruskynjun og eru innblásin af beinni upplifun margbreytilegra lita og ljósbrigða náttúrunnar. Frá lokum sjöunda áratugarins hefur hann einkum fjallað um samband manneskjunnar og náttúrunnar í verkum sínum. Eiríkur Smith lærði í Handíðaskólanum í Reykjavík á árunum 1946–1950. Þaðan lá leið hans til Kaupmannahafnar í Danmörku til að læra hjá Rostrup-Bøyesens. Þar var megináherslan lögð á teikningu eftir grískum styttum og sú kennsluaðferð taldi Eiríkur hafa kennt sér að hugsa stórt í málverki án þess að vanrækja þó smáatriðin. Hann nýtti sér þessa þjálfun meðal annars þegar hann byrjaði að mála stærri myndir á Íslandi. Eiríkur dvaldi einnig um stund í París líkt og nokkrir aðrir ungir íslenskir listamenn í byrjun sjötta áratugarins. Á þeim tíma var París orðin meginaðsetur geómetrískrar abstraktlistar á heimsvísu og tóku íslensku listamennirnir þessa stefnu með sér heim. Árið 1957 sagði Eiríkur skilið við strangflatarlistina og brenndi nokkurn hluta af verkum sínum í malargryfju í Hafnarfirði. Með þessu móti vildi hann segja skilið við fortíðina og marka nýtt upphaf í myndlist sinni með meiri áherslu á ljóðræna abstraktlist.