Bikini tré

2000

Hulda Vilhjálmsdóttir 1971-

LÍ-8866

Frá því Hulda Vilhjálmsdóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2000 hefur málverkið verið hennar helsti miðill en hún hefur einnig unnið margs konar rýmisverk og innsetningar ásamt gjörningum, og gefið út myndskreyttar ljóðabækur auk þess að reka gallerí um tíma, sem var þriggja mánaða gjörningur, gallerí Angelicu Smith. Þá bætti hún við sig diplómanámi í leirmótun og keramiki frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Árið 2007 var Hulda tilnefnd til Carnegie Art Award og 2018 til Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir einkasýninguna Valbrá í Kling & Bang. Afköst hennar á myndlistarsviðinu eru með eindæmum og árið 2020 hlaut hún myndlistarverðlaun Nýlistasafnsins, Tilberann. Hún hefur þróað afar persónulegt myndmál þar sem konan er í aðalhlutverki. Í verkinu Bikiní tré ber fyrir sjónir höfuðlausar konur klæddar bikiní-baðfötum sem raðast upp eins og nafnlaus tré í skógi. Með endurtekningu formanna skapast hrynjandi og vídd þar sem blámáluð baðfötin á ljósum líkömunum skapa fjarlægð eins og fjöllin blá til mótvægis við þá svörtu í forgrunni. Þéttriðið net smágerðra depla þekur myndflötinn sem eykur flataráhrifin. Stundum sjáum við ekki trén fyrir skóginum eða sjáum ekki skóginn fyrir trjánum en í verkum sínum má segja að Hulda grandskoði birtingarmyndir kvenna, hvernig það er að verða og vera kona. Hún kannar málið út frá sjálfri sér og eigin nærsamfélagi með áherslu á þær fjölbreyttu stellingar sem konur setja sig í. Hún beitir ljóðrænni túlkun með djarflegum hætti og notfærir sér möguleika málverksins, blæbrigði litanna og pensilskrift sem er í senn hrá, fersk og yfirveguð. Seinni árin hefur hún jafnframt brugðið upp myndum af náttúrunni í kraftmiklum ljóðrænum abstraktverkum.

  • Ár2000
  • GreinMálaralist - Blönduð tækni
  • Stærð150 x 100,5 cm
  • EfnisinntakBikini, Tré
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur, Strigi

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17