Berlinde De Bruyckere
Berlinde De Bruyckere
21.5.2016 — 4.9.2016
Teikningar og skúlptúrar belgísku myndlistarkonunnar Berlinde de Bruyckere fæðast sem raunsæjar, anatómískar stúdíur undir áhrifum frá flæmska skólanum og þýsku endurreisninni sem hafa haft djúpstæð áhrif á verk hennar, sem og frá ímyndunarafli og ljóðrænu næmi hennar sjálfrar.
Sérstaklega eru það málverk Lucas Cranach eldri (1472-1553), sem hafa snert De Bruyckere. Um upplifun sína af verkum hans segir hún:
„Þegar ég skoða málverk hans upplifi ég hið líkamlega í þeim sem tjáningarmáta fyrir hugsanir og hugðarefni þessara persóna – ótta þeirra, ástríður, efasemdir …Allra helst tengi ég við það hvernig hann fæst við hið líkamlega, og notar hinn holdlega líkama sem táknmynd hins andlega líkama.“
Hinar kraftmiklu, afmynduðu fígúrur De Bruyckere, mennskar jafnt sem af hrossakyni, úr vaxi, feldi dýra eða hári, kalla fram frásagnir og upplifanir úr nútímanum. Gegnumgangandi í verkum hennar er ríkt innsæi sem er undirbyggt af djúptækri þekkingu á viðfangsefninu og vinnsluaðferðunum.
Ferill De Bruyckere hefur spannað þrjá áratugi en hún náði alþjóðlegri hylli á Feneyjatvíæringnum árið 2003, þar sem skúlptúrar hennar voru sýndir í ítalska skálanum. Á sýningunni í Listasafni Íslands eru skúlptúrar og teikningar frá síðustu fimmtán árum. Þetta er fyrsta sýning hennar á Íslandi.
Sýningin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík og Listasafns Íslands.