Christian Marclay, The Clock
2.5.2025 — 22.6.2025
Hið margrómaða verk The Clock (2010) eftir svissnesk-bandaríska listamanninn Christian Marclay verður sýnt á Listasafni Íslands frá 2. maí til 22. júní 2025. Verkið er epískt, sólarhringslangt vídeóverk á einni rás með hljóði. The Clock hlaut Gullna ljónið á Feneyjatvíæringnum árið 2011 og er almennt talið eitt merkasta listaverk 21. aldarinnar. Verkið er bæði djúpstæð hugleiðing um tímann og virðingarvottur við sögu kvikmyndalistarinnar.
Vídeóverk Marclays er klippt saman úr mörg þúsund myndbrotum, ýmist svarthvítum eða í lit, sem hann safnaði á þriggja ára tímabili. Hvert myndbrot skírskotar til ákveðinnar tímasetningar, hvort sem er í gegnum samtal eða með vísun í tímamæli – klukku, úr, stundaglas, sólúr eða blikkandi útvarpsvekjara – sem í réttri tímaröð spannar heilan sólarhring, mínútu fyrir mínútu. Vídeóið er stillt á staðartíma og er því sjálft tímamælir. Í The Clock er einnig hljóðmynd eftir Marclay þar sem hann notast við hrynjandi hljóða og tónlistar til að fylgjast með því hvað tímanum líður.
Þau ótal augnablik sem skeytt er saman í verkinu mynda ekki heildræna frásögn. Þess í stað skapast nánast súrrealísk hughrif á meðan við fylgjumst með þeim atburðum sem eiga sér stað á þessum sólarhring. Segja má að The Clock sé epísk frásögn um mannlegt athæfi, framkölluð í gegnum linsu kvikmyndavélarinnar, frásögn um þær sameiginlegu hversdagsathafnir okkar sem óhjákvæmilega leiða til tilviljanakenndra samfunda og óvæntra uppákoma.
The Clock mætti einnig lýsa sem memento mori, sem áminningu um hverfulleika lífsins. Marclay hefur sagt að verkið „fjalli á vissan hátt mjög mikið um dauðann ... Frásögnin er stöðugt trufluð og við sífellt minnt á það hvað tímanum líður.“
Í Listasafni Íslands munu fara fram tvær sólarhringslangar sýningar á The Clock sem hefjast annars vegar á opnunarkvöldi sýningarinnar og hins vegar á sumarsólstöðum.
Sýningin er að hluta til styrkt af Pro Helvetia.
Salur
1
2.5.2025 — 22.6.2025
Verkið:
Christian Marclay The Clock, 2010
Vídeó á einni rás með steríóhljóði.
Hlutföll 16:9, 24 klukkutímar í lúppu
Sýnt með leyfi listamannsins og Paula Cooper Gallery, New York.
Ljósmynd:
Christian Marclay
Myndbrot úr The Clock, 2010
Vídeó á einni rás með hljóði
24 klukkutímar
© Christian Marclay
Courtesy Paula Cooper Gallery, New York.
Í samvinnu með