Let us keep our own noon, 2013
David Horvitz
19.11.2016 — 21.12.2016
DAVID HORVITZ
(f.1982 Los Angeles, CA, USA. Býr og starfar í Los Angeles, CA, USA)
Innsetning á fjörutíu og sjö brons bjöllum, sem bræddar eru úr franskri kirkjuklukku frá árinu 1742, og gjörningur fyrir fjörutíu og sjö flytjendur á hádegi að staðartíma, laugardaginn 19. nóvember 2016. Með leyfi listamannsins og Chert, Berlín.
Gjörningurinn fór fram í anddyri Listasafns Íslands laugardaginn, 19. nóvember, kl 13:13 (hádegi að staðartíma). Innsetningin verður sýnd í Listasafni Íslands fram að vetrarsólstöðum; 21. desember 2016.
Sýning á verki David Horvitz í Listasafni Íslands er liður í samstarfi safnsins við alþjóðlegu listahátíðina Sequences, sem fagnar nú 10 ára afmæli sínu. Hátíðin verður haldin í október 2017 og sýningarstjóri áttundu útgáfu hennar, Sequences VIII, er Margot Norton.
Let us keep our own noon (2013) samanstendur af 47 bjöllum, sem mótaðar eru í smækkaðri mynd úr bronsi franskrar kirkjuklukku frá árinu 1742. Verkið er virkjað af þátttakendum, sem hringja bjöllunum samtímis í safnrýminu laugardaginn 19. nóvember 2016 klukkan 13:13, þegar sólin er staðsett nákvæmlega fyrir ofan safnbyggingu Listasafns Íslands. Þátttakendur taka sér bjöllu í hönd, hringja þeim og finna samhljóm og fara loks hver um sig út úr byggingunni, út á götu og hringja bjöllum á göngu þar til aðeins eigin hljómur heyrist. Þá er snúið aftur til safnsins og bjöllurnar hengdar aftur upp.
Titillinn er fenginn úr 19. aldar fyrirsögn greinar úr Boston Evening Transcript sem fjallaði um mótmæli þar í borg gegn stöðlun tíma, sem krafist hafði verið af járnbrautarfyrirtækjum. Með vísun til hverfandi notkunar á staðsetningartíma í afstöðu við sól, minnir verkið okkur á að hrynjandi hins daglega lífs okkar er ekki eingöngu ákvarðaður af okkur, hefðum okkar og staðsetningu, heldur einnig af alþjóðlegum öflum.
Listamaðurinn David Horvitz hefur ekki aðeins áhuga á þeim breytingum sem fólust í innleiðingu samræmdra tímabelta á heimsvísu – kerfa sem færðu okkur frá því að reikna út tíma í afstöðu við sólu og gerði okkur háð samstilltu gangverki armbandsúra, heldur einnig áhuga á möguleikanum á að snúa þessari þróun við. Við það að dreifa kirkjuklukkunni og hljóði hennar veitir hann hverjum þátttakanda vald til að hafa áhrif á hljóð tímans og til að hafna stöðluðum mælingum og birtingarmyndum.
Mynd: David Horvitz, Let Us Keep Our Own Noon, frá innsetningu verksins á sýningunni ”Good luck with your natural, combined, attractive and truthful attempts in two exhibitions" í Crac Alsace, í sýningarstjórn Filipa Oliveira og Elfi Turpin, 18.06 – 20.09.2015. Með góðfúslegu leyfi listamannsins og Chert Lüdde, Berlín.