Eldrúnir

Steina

13.4.2017 — 20.8.2017

Listasafnið
Mynd: Steina,  Pyroglyphs,  1994. Myndbandsstilla.
Listasafnið

13.4.2017 20.8.2017

Vídeósniðvarp (Matrix)

Steina

Samstarfsaðilar Steinu

Tom Joyce og Zach Poff

Steina  (Steinunn Briem Bjarnadóttir Vasulka, f. 1940) er íslenskur myndlistarmaður og alþjóðlegur frumkvöðull á sviði vídeólistar. Hún hóf feril sinn sem fiðluleikari og lærði í Prag árin 1959 til 1964. Þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, Woody Vasulka (f. 1937), verkfræðingi og kvikmyndagerðarmanni. Saman fluttu þau til New York árið 1965. Með tilkomu handheldu kvikmyndatökuvélarinnar hófu þau, 1969, að vinna með myndbandstækni. Árið 1971 stofnuðu þau fyrsta vettvang vídeó- og margmiðlunarlistar í heimi, The Kitchen, í New York, og tveimur árum síðar komu þau á fót fyrsta námi í nýmiðlalistum (e. media art studies ) við ríkisháskólann í Buffaló, New York. 
Steina og Woody eru talin til merkilegustu tilraunalistamanna heims og eru frumkvöðlar á sviði vídeólistar. Sérstakt framlag þeirra til vídeólistarinnar byggist á rannsóknum þeirra á eiginleikum rafrænna mynda og sköpun tækjabúnaðar, vélmenna og ýmissa véla, sem hafa haft mikil áhrif á þróun vídeólistar. Frá skjáum til upptöku, og frá heimildamyndaferli til flókinna innsetninga,  hafa þau umbreytt sér og endurskapað sig sem listamenn, og eru enn að.
Verk Steinu hafa verið sýnd á helstu söfnum og kvikmyndahátíðum um heim allan, þar á meðal í Whitney Museum og Brooklyn Museum í New York, Centre Georges Pompidou í París, Berlin Film Festival, Ars Electronica í Linz og í The Institute of Contemporary Art í Boston. Steina hlaut Guggenheim-verðlaunin árið 1976 og árið 1997 var hún fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum. 
Steinu var veitt hin íslenska fálkaorða fyrir framlag sitt til vídeólistar árið 2015 og árið 2016 veitti Alþingi henni heiðurslaun listamanna.

ELDRÚNIR  1994
 

Vídeósniðvarp (Matrix) eftir Steinu
Í samstarfi við Tom Joyce

Upphaflegur hvati að verkinu Eldrúnir  var hin ævaforna iðn járnsmiðsins sem fljótlega breyttist í tónverk ... Með orðum Steinu: „Árið 1994 eyddi ég löngum stundum í eldsmiðju Toms Joyce og tók upp myndskeið af smíði hans á járnhliði. Mér þóttu járnhlið helst til efnismikil, svo ég beindi vélinni að gneistandi og kraumandi málminum sem logarnir, þjalirnar og steðjarnir mótuðu – snöggum blossunum ... Við Tom deilum ómældri aðdáun á eldi – sem fyrirbæri og sem miðli sem umbreytir öðrum efniviði ... sem ummyndunarmiðli.“
Steina myndaði járnsmíðina, hömrun, svörfun, logsuðu og eldstýringu, mestmegnis í nærtökum, opinn eld sem fyrirbæri, loga, neistaflug, bruna og glóandi málma, auk ýmissa óheftra myndskota af trjáviði brotnum í skrúfstykki, brennandi bókastöflum, sviðnum pappír og viði.      
Það var tiltölulega auðvelt að klippa saman þetta myndefni í þrjú samsvarandi myndskeið þar sem sjónrænn efniviðurinn var sæmilega áþekkur eða ólíkur. Hljóðið í myndunum var hins vegar of keimlíkt eða of ómstrítt og frekt á athygli. Það varð til þess að hljóðið réð klippingunni. Steina endurvann það stafrænt eins og hljóðsetningu, án þess að tilviljunarkenndur hávaðinn yrði samhljóma. Tónræn útkoman varð samt áhugaverð, hljómbreyting sem þeytti hljóðinu skyndilega upp eða niður um eina áttund og varpaði rafrásunum svo þær endurómuðu um allt. Hljóðið og hljómfallið verður allegro con brio, pianoforte eða pianissimo. Í verkinu má oft heyra glamrandi áslátt, en svo dettur allt í dúnalogn og einungis heyrist snarkið í logunum eða holur blástur í físibelgnum ...
ELDRÚNIR  er stórbrotin hugleiðing um eldinn. Steina skapar ólýsanlegt landslag sem kviknar af marglitum bjarma rauðglóandi málma og leiftrandi neistaflugi. Hún lætur okkur finna fyrir seiðandi krafti flöktandi loga þótt hjartað tapi nokkrum slögum þegar blossinn úr logsuðutækinu skýst eins og kólfur út í loftið í spennuþrungnu umhverfi smiðjunnar.                                                       

Verkið Eldrúnir (Pyroglyphs) var sýnt í fyrsta sinn á Íslandi.
Samstarfsaðilar Steinu: Tom Joyce og Zach Poff

Innsetning í Listasafni Íslands sem sýnir litríka renningar af hári í misjöfnum lengdum. Verkið er eftir Hrafnhildi Arnardóttur / Shoplifter.

26.5.2017 — 22.10.2017

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17