Flótti undan eldgosi – skissur og málverk eftir Ásgrím Jónsson
Ásgrímur Jónsson
13.1.2024 — 14.4.2024
Eldgos voru Ásgrími Jónssyni (1876–1958) hugleikin, sem og flótti undan náttúruhamförum, eins og fjölmörg varðveitt myndverk tengd þessum viðfangsefnum bera vitni um. Elstu ársettu verkin eru frá 1904 en flestar eldgosamyndanna voru unnar á tímabilinu 1945–1957. Til þeirra teljast um 50–60 myndir, stór málverk, vatnslitamyndir og fjöldi teikninga sem margar eru frumdrög að málverkunum. Iðulega sýna þessar myndir óttaslegið fólk og skepnur í forgrunni á flótta undan eldgosi sem sést í bakgrunni. Ringulreið ræður ríkjum og ýtir magnað litaspil undir skelfinguna sem Ásgrímur túlkar í þessum verkum. Barn að aldri upplifði Ásgrímur eldgos í Krakatindi austan Heklu og meðfylgjandi jarðskjálfta. Í endurminningum sínum talar hann um að í kjölfarið hafi hann gert sér grein fyrir að háski og hrikadýrð sé samferða lífinu á þessari jörð. Síðar upplifði hann gos í Heklu, Kötlu og Eyjafjallajökli en Kötlugosið 1918 telst helsta uppspretta eldgosamynda hans auk þess sem frásagnir af eldri náttúruhamförum hafa vafalítið haft áhrif á hann. Á fjórðu hæð Safnahúsins er lítil vatnslitamynd af eldgosi á Sikiley frá árinu 1908 en í æviminninginum sínum segist Ásgrímur hafa byrjað á eldgosamyndum veturinn sem hann dvaldist á Ítalíu árið 1908.
Ásgrímur Jónsson var jafnvígur á olíu og vatnsliti og oft urðu vatnslitamyndirnar kveikjan að stærri olíumálverkum líkt og vatnslitamyndin Flótti undan eldgosi frá 1940–1950. Í safni Ásgríms Jónssonar má finna þrjú olíumálverk með samnefndum titli ásamt fjölda teikninga og skissa sem sýna sama myndefnið með endurteknum hætti. Pappírsverkin hafa yfir sér ferskleika skissunnar og tilfinningu fyrir nánd sem getur að einhverju leyti glatast þegar myndefnið er útfært í olíu. Engu að síður búa olíumálverkin yfir dramatískum tjáningarkrafti sem minnir á expressjónísk efnistökin í landslagsmyndum sem Ásgrímur vann í Húsafelli um líkt leyti. Eldgosamyndirnar teljast einnig náskyldar þjóðsagnamyndum listamannsins frá sama tíma, og þeirri túlkun hans á ótta mannsins við náttúruöflin sem þar birtist. Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að í þeim gefur listamaðurinn okkur hlutdeild í tilveru á mörkum ímyndunar og veruleika sem vitnisburð um að tilveran er fallvölt.
Í safni Ásgríms Jónssonar er nokkur fjöldi olíumálverka sem teljast ófullgerð og hafa fæst þeirra komið fyrir sjónir almennings áður. Eitt þessara verka er Eldgos frá 1955–1956 sem skráð var ófullgert árið 1958, rétt eftir andlát listamannsins. Segja má að í þessu verki sameinist stórbrotin tjáning olíumálverkanna og hinn hraði ferskleiki skissunnar og vatnslitarins – sem veitir þannig óvænta innsýn í innstu kviku listamannsins og sköpunarferli hans.
Flótti undan eldgosi – skissur og málverk eftir Ásgrím Jónsson
Í Svefnrofum
Ein er sú berskusýn, sem vakir sífelldlega fyrir mér í endurminningunni. Ég stend úti í hlaðvarpa, tveggja ára gamall snáði, einn míns liðs og umvafinn hátíðlegri dul ljósaskiptanna. En skyndilega verður mér litið í norðaustur, og þá sé ég allt í einu, hvar eldglæringum bregður á loft, rauðum feiknstöfum, sem rista dimmt himinhvolfið, og jafnsnemma finn ég jörðina bifast undir fótum mér. Ég geri mér þess vitanlega enga grein, hvort ég er lengur eða skemur vitni að þessu torkennilega fyrirbæri, en hugur minn er á samri stund gagntekinn lotningarfullum ugg. Í hárbeittri skynjun þeirrar tegundar, sem stundum lýstur meðvitund mannsins í svefnrofunum, verður mér í fyrsta sinn á ævinni ljóst hver háski og hrikadýrð er samferða lífinu á þessari jörð.
Það er ekki fyrr en fjörtíu árum síðar, að ég kemst að hinu sanna um þetta áhrifamikla fyrirbæri, sem geymzt hefur með mér alla tíð án þess að mér kæmi til hugar að leita á því skýringar. Eldglæringarnar og jarðhræringin áttu upptök sín í umbrotum eða sprengingum, sem urðu í Krakatindi, austnorður af Heklu, að áliðnum degi hinn 27. febrúar 1878. En sennilega er það umfram allt annað fyrir áhrif þessarar sviplegu reynslu, að ég tók í öndverðri bernsku að festa hugann öllum stundum við náttúruna og gerðist miklu skyggnari en ella á fegurð hennar, fjölbreytni og mikilleik. Það er þess vegna engin tilviljun, að nærfellt allar mínar fyrstu minningar eru tengdar einhverjum slíkum fyrirbrigðum á lofti eða láði og mörg þeirra standa mér ekki aðeins ljóslifandi fyrir hugskotsjónum enn í dag heldur vekja þau jafnvel hjá mér samskonar kenndir, ýmist ljúfar eða geigvænar, eins og fyrir meira en þrem aldarfjórðungum, þegar allt sem fyrir augun bar, átti beina leið til hjartans og var raunverulega miklu dýpri og hátignarfyllri merkingar en nokkuð það annað, er gerðist síðar á ævinni. Þannig geymi ég frá allra fyrstu berskuárunum ákaflega skýra og litsterka minningu um eldrauðan kvöldhimin, hryllilega fagran og yfirþyrmandi, og enn aðra minningu, eft til vill frá sama kvöldi um voðalega rauð norðurljós, sem fullorðna fólkið taldi stafa af blóðsúthellingum einhversstaðar úti í heimi.
Teksti fenginn úr bókinni Ásgrímur Jónsson, Tómas Guðmundsson færði minningar hans í letur.
Útgáfa: Helgafell, 1962. Reykjavík.
Salur
1
13.1.2024 — 14.4.2024
Verkefnastjóri sýninga
Vigdís Rún Jónsdóttir
Umsjón með viðburðum og fræðslu
Ragnheiður Vignisdóttir
Markaðs- og kynningarmál
Dorothée Kirch
Umsjón tæknimála og ljósmyndun
Sigurður Gunnarsson
Forvarsla
Steinunn Harðardóttir
Uppsetning
Ísleifur Kristinsson
Steinunn Harðardóttir