Hrynjandi Hvera

Sigrún Harðardóttir

17.6.2016 — 11.9.2016

Listasafnið
Mynd af fólki sem horfir á vídeólistaverk

HRYNJANDI HVERA fjallar um hina margbreytilegu hrynjandi og hljóm yfirborðsvirkni jarðhitasvæðis. Með gagnvirkri innsetningu vill listakonan hvetja sýningargesti til að taka þátt í framvindu verksins og setja þannig saman eigin skynjun á sjónrænum og hljóðrænum þáttum hversins. Upplifun þess sem tekur þátt í framvindu innsetningarinnar er svipuð og af hljóðfæraleik eða hljómsveitarstjórn. Það eru hinir margbreytilegu hverir sem eru hljóðfærin í þessu verki og tónbil hljóma þeirra eru margbreytilegir tónar sem myndast við mismunandi stig gjósandi hvera. HRYNJANDI HVERA er gagnvirkur óður til jarðarinnar í formi 36 myndbanda og gólfstykkis sem inniheldur 9 þrýstiskynjara.

Sigrún Harðardóttir nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við Rijksakademie van beeldende kunsten í Amsterdam. Hún er með mastersgráðu í fjölmiðlafræði með áherslu á margmiðlun frá Université du Québec à Montréal. Sigrún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum hér heima, og á söfnum og hátíðum út um allan heim. Verk eftir Sigrúnu eru meðal annars í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Kópavogs, Landsbanka Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja. Viðfangsefni Sigrúnar hefur meðal annars verið yfirborðsvirkni jarðhitasvæða sem hún hefur myndgert ýmist í málverkum eða tjáð með vídeói og hljóði. Má þar nefna sýningu Sigrúnar HVER/HVAR í Hafnarborg 1997, sem mun vera fyrsta einkasýning íslensks listamanns þar sem þema sýningarinnar fjallar alfarið um hverinn, og síðan sýningu hennar á Hrynjandi hvera í Hafnarborg 2006.

Verkið HRYNJANDI HVERA er ein af sérsýningum Vasulka-stofu í ár. Sýningin er opin alla daga frá kl. 10 til 17. Sýningunni lýkur 11. september 2016.

Mynd af skúlpúr úr tré eftir Sigurjón Ólafsson

3.9.2016 — 15.10.2017

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17