Húsafell Ásgríms og forynjur
Ásgrímur Jónsson
15.9.2014 — 30.11.2014
Eftir 1940 dvaldi Ásgrímur Jónsson gjarnan í Húsafelli á sumrin og flest málverkanna þaðan, sem sýnd eru á sýningunni Húsafells Ásgríms, eru frá fimmta áratug síðustu aldar. Á sýningunni er bæði að finna vatnslitamyndir og olíumálverk.
Á efri hæð Safns Ásgríms Jónssonar er sýningin Forynjur. Íslenskar þjóðsögur voru Ásgrími eftirlætisefni, enda sýndi hann þeim meiri áhuga en nokkur annar listamaður fyrr og síðar. Hvers konar forynjur voru honum hugleiknar en af nógu var að taka í þeim þjóðsagnabálkum sem áttu hug og hjarta listamannsins. Flokkun hvers konar yfirskilvitlegra fyrirbæra setur mark sitt á íslensk þjóðsagnasöfn, rétt eins og um náttúruleg fyrirbæri væri að ræða. Forynjur eru þar engin undantekning enda vildu Íslendingar ekki láta á sér sannast að þeir þekktu ekki muninn á hinum ýmsu ókindum sem hrelldu þá og skelfdu. Tröll, draugar, skrímsli og huldufólk voru nákvæmlega flokkuð og skilgreind. Ásgrímur kunni þá flóru bersýnilega utanbókar og naut þess að bregða henni upp í allri sinni fjölbreytni rétt eins og óvættirnar stæðu honum ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Myndir hans af forynjum eru nær óteljandi.