Við sjáum óvænt abstrakt

Samsýning

13.4.2024 — 26.5.2024

Listasafnið

Á sýningunni Við sjáum óvænt abstrakt er teflt saman þremur hópum listamanna af ólíkum kynslóðum sem koma úr mismunandi áttum. Fyrstan má telja hóp listamanna sem fram kom í kringum seinni heimsstyrjöld og unnu með hugmynda- og fagurfræði abstrakt myndlistar. Þessir listamenn víkkuðu á markvissan hátt út heim myndrænnar skynjunar með virku samtali við listasöguna og leituðu nýrra og persónulegra leiða í myndmáli sínu. Í öðru lagi eru sýnd verk fatlaðra listamanna sem vinna beint og óheft á flötinn, eru í sterku samtali við sinn innri tilfinningaheim og auðvitað líka upplifun sína af heiminum og margs konar myndlist. Í þriðja lagi eru sýnd verk annarra samtímalistamanna sem hafa hlotið formlega menntun á sviði myndlistar og vinna á ólíkan hátt og vinna líka abstrakt myndverk. Þessir listamenn vinna að list sinni á tímum þegar nánast allt er leyfilegt og mögulegt – og samtal við listasöguna er ekki endilega efst á baugi. Frekar má segja að samtal þeirra sé við ólíka efnisheima og raunveruleika þar sem hversdagslegir hlutir og fyrirbrigði fá nýtt og óvænt hlutverk og samhengi.

Á sýningunni Við sjáum óvænt abstrakt renna þessir ólíku heimar þriggja hópa saman. Skynjar áhorfandinn verk Guðmundu Andrésdóttur á nýjan og óvæntan hátt við hlið verks Ásmundar Stefánssonar? Og sjáum við list Önnu Hrundar Másdóttur á annan hátt þegar við getum horft í senn á verk hennar og Nínu Tryggvadóttur? Sýningin er á vissan hátt tilraun til að víkka út abstrakthugtakið og um leið tengja milli ólíkra heima sem hafa ekki skarast mikið fram að þessu.

Sumir þessara listamanna hafa hingað til einkum sýnt verk sín undir merkjum Listar án landamæra en þeim er nú í fyrsta skipti boðið að sýna verk sín á Listasafni Íslands. Verk fatlaðra listamanna eru sett í samhengi við verk þekktari listamanna og við það öðlast áhorfandinn ferska sýn sem víkkar út tilfinningu hans fyrir hugtakinu abstrakt. Það er mikilvægt að listasöfn endurskoði sífellt hlutverk sitt og stöðu í samfélaginu og sýningin Við sjáum óvænt abstrakt er þáttur í þeirri endurskoðun.

Salur

2

13.4.2024 26.5.2024

Listamenn

Anna Hrund Másdóttir

Arna Ýr Jónsdóttir

Ásgeir Ísak Kristjánsson

Ásmundur Stefánsson

Davíð Örn Halldórsson

Gerður Helgadóttir

Guðmunda Andrésdóttir

Haraldur Jónsson

Hjörleifur Sigurðsson

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir

Kolbeinn Jón Magnússon

Lára Lilja Gunnarsdóttir

Nína Tryggvadóttir

Páll Haukur Björnsson

Sigurður Reynir Ármannsson

Steinunn Önnudóttir

Svavar Guðnason

Þorvaldur Skúlason

Sýningarstjóri

Kristinn G. Harðarson

Verkefnastjóri sýninga

Vigdís Rún Jónsdóttir

Forvarsla

Steinunn Harðardóttir

Í samvinnu með

List án landamæra

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17