Dr. Selma Jónsdóttir – Aldarminning

22.8.2017 — 22.10.2017

Listasafnið
Svart hvít ljósmynd af Dr. Selmu Jónsdóttur þar sem hún stendur við listaverk og virðir það fyrir sér.

Dr. Selma Jónsdóttir (22.8. 1917 – 5.7. 1987), forstöðumaður Listasafns Íslands, var brautryðjandi á sviði listfræðirannsókna og safnastarfs hér á landi. Hún var fyrsti Íslendingurinn sem lauk prófi í listfræði og starfaði hér á landi. Árið 1960 varð hún fyrsta konan sem fékk doktorsnafnbót frá Háskóla Íslands.

Sigþrúður Selma Jónsdóttir var fædd í Borgarnesi 22. ágúst 1917 og var yngsta dóttir Jóns Björnssonar, kaupmanns í Borgarnesi, og konu hans Helgu Björnsdóttur. Að loknu prófi frá Verzlunarskóla Íslands stundaði hún nám í Þýskalandi, en hélt árið 1942 til náms í listfræðum við háskólann í Berkeley í Kaliforníu (Berkeley, University of California) og lauk B.A.-prófi í listasögu frá Columbia-háskóla í New York (Columbia University in the city of New York) 1944. Hún stundaði framhaldsnám við Warburg Institute við Lundúnaháskóla (The Warburg Institute, school of advanced study, University of London) og Columbia-háskólann í New York, þaðan sem hún lauk M.A.-prófi árið 1949. Doktorsritgerð sína, Byzönsk dómsdagsmynd í Flatatungu, varði hún við Háskóla Íslands árið 1960, en þar sýndi hún fram á að útskornar fjalir úr Flatatungu hefðu upprunalega verið hluti af dómsdagsmynd í býsönskum stíl frá miðöldum. Samhliða embættisstörfum lagði Selma alla tíð stund á rannsóknir og ritstörf um listfræðileg efni og vann hún mikið brautryðjendaverk með rannsóknum sínum á sviði miðaldalistar.  

Þegar Listasafn Íslands fékk inni á efstu hæð í nýbyggðu safnahúsi við Suðurgötu 41 árið 1950 var Selma ráðin fyrsti og eini starfsmaður þess. Selma var skipuð umsjónarmaður 1953 og forstöðumaður safnsins árið 1961. Því starfi gegndi hún til dauðadags árið 1987. Það kom því í hlut Selmu að móta starfsemi Listasafns Íslands og marka stefnuna eftir að það tók til starfa sem sjálfstæð stofnun. Frá upphafi var safninu sniðinn þröngur stakkur bæði í húsnæði og fjárveitingum en af þrautseigju og alúð tókst henni að efla starfsemina og stækka safnið. Munaði þar mest um eigið húsnæði í hjarta borgarinnar en Selmu var það alla tíð mikið kappsmál. Fyrir baráttu hennar eignaðist safnið Fríkirkjuveg 7 árið 1972 og við tóku byggingarframkvæmdir og mikið uppbyggingarstarf. Því miður entist Selmu ekki aldur til að sjá safnið taka til starfa í nýjum húsakynnum, en fyrsta sýningin,  Aldarspegill – Íslensk myndlist í eigu safnsins 1900–1987, var opnuð í janúar 1988.

Þegar Selma hóf störf við Listasafn Íslands voru rétt rúmlega 1.000 verk í safneigninni en þegar hún féll frá hafði fjöldi skráðra verka fimmfaldast og spanna verkin tímabilið frá miðri 19. öld til samtímans og gefa gott yfirlit yfir íslenska listasögu. Munaði þar mest um gjafir til safnsins, en velvilji listamanna og annarra einstaklinga hefur ætíð verið safninu mjög mikilvægur. Í tíð Selmu voru einnig keypt rúmlega 1.000 verk í safnið, fjölbreytt verk eftir eldri og yngri listamenn.

Í tíð Selmu jókst sýningarhald safnsins til muna og stóð safnið fyrir fjölmörgum sýningum á safnkostinum í húsnæði safnsins, víðs vegar um landið og einnig erlendis, auk þess að halda fjölbreyttar sýningar á verkum einstakra listamanna, bæði innlendra og erlendra, og kynna erlenda myndlist fyrir landsmönnum. Selma var einnig hvatamaður að umfangsmiklu heimildasafni um íslenska myndlist og myndlistarmenn, sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki í listfræðirannsóknum fræðimanna og nemenda á öllum skólastigum.

Selma hafði einlægan áhuga á nútímalist og helgaði líf sitt framgangi íslenskrar myndlistar. Fyrir embættis- og fræðistörf sín var Selma sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1979 og einnig hlaut hún önnur norræn heiðursmerki. 

26.8.2017 — 21.1.2018

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17