Spegilmynd

Ásgrímur Jónsson

11.10.2015 — 29.11.2015

Sjálfsmynd listamannsins Ásgríms Jónssons frá 1947, vatnslitamynd

11.10.2015 29.11.2015

Sýningarstjóri

Rakel Pétursdóttir

Í safneigninni er að finna 29 verk eftir Ásgrím með heitinuSjálfsmynd. Elstu sjálfsmyndina af þeim sem til eru í safninu málaði Ásgrímur Jónsson á sama árinu og hann hóf nám við Listaháskólann í Kaupmannahöfn, árið 1900. Á dönskum söfnum hafði hann aðgang að úrvali myndlistar eftir marga helstu listamenn álfunnar. Meðal verka sem hann hreifst af voru mannamyndir eftir hollenska meistarann Rembrandt van Rijn (1606-1669) þar sem lýsingin er listform í sjálfu sér. Rúmlega tvítugur endurskapar Ásgrímur ásjónu sína með olíulitum á striga þar sem hann horfir rannsakandi á sjálfan sig í speglinum. Það á einnig við um þær óvægnu myndir sem sami maður, þá á áttræðisaldri, dregur upp í einni hendingu með vatnslitum. Vinnustofa listamannsins skapar verkunum persónulega umgjörð og nánd.

Texti sýningarstjóra um sjálfsmyndir Ásgríms Jónssonar

Eina elstu sjálfsmyndina málaði Ásgrímur stuttu eftir að hann hóf nám við Listaháskólann í Kaupmannahöfn árið 1900. Blá, athugul augun horfa skáhallt á þennan alvörugefna unga mann sem ofanljósið formar mildilega. Birtan endurkastast af vanga og nefbroddi listamannsins og nægir áhorfandanum til að átta sig á formi andlitsins. Óformlegur klæðnaðurinn, vesti og kragalaus skyrta, auk úfins hárs gefa til kynna að hér sé unnið hörðum höndum. Í svip listamannsins má greina kvíða, enda framtíðin óviss.

Á dönskum söfnum hafði Ásgrímur aðgang að heimslistinni. Meðal verka sem hann hreifst af voru mannamyndir eftir hollenska meistarann Rembrandt van Rijn (1606–1669) sem hann lýsti löngu seinna með eftirfarandi hætti: „En þarna voru líka myndir eftir Rembrandt, einkum andlitsmyndir, og þær hrifu mig meira en allt annað. Mér fannst fegurðin og fínleikinn í þessum málverkum vera af einhverjum æðra heimi og myndflöturinn allur þéttskipaður tónum eins og það gæti verið eftir Bach“ (Ásgrímur Jónsson. Tómas Guðmundsson færði minningar hans í letur. Reykjavík, Helgafell, 1962, bls. 46). Rembrandt mun hafa málað nærri hundrað sjálfsmyndir um sína daga þar sem lýsingin er nánast listform í sjálfu sér.


Í sjálfsmynd sem máluð er á tímabilinu 1940–1945 snýr listamaðurinn hinum vanganum að áhorfandanum þar sem hann situr í brúnum jakkafötum með hatt og horfir einbeittur á fyrirmyndina. Sjáöldrin þanin og svipurinn alvörugefinn. Birtan er sterkari og meira rautt í skuggunum, litatónarnir heitari. Svipurinn eilítið ákveðnari. Hér er lærður myndlistarmaður á ferð með skarpa sjón og næma heyrn. Ásgrímur hafði uppgötvað tónlistina í litunum. Hann átti fallegar minningar frá barnæskunni um söng móður sinnar og þakkaði henni tónlistaráhugann. Listamaðurinn horfir ekki bara á umhverfi sitt, hann rannsakar það með augunum. Hann lét þau orð falla um einn af uppáhaldsstað sinn á landinu, Húsafell, að „þar væri umhverfið með heiðum en hörkulegum svip eins og maður væri í óbyggðum þó í byggð sé“ (Valtýr Stefánsson, (1942): Nokkrar minningar Ásgríms Jónssonar málara. Lesbók Morgunblaðsins, 392).


Vatnslitamyndin frá árinu 1947 er djarflega máluð með sterkum andstæðum litum. Í rauðleitri birtu verða skuggarnir grænir. Þjálfuð augu listamannsins greina litina í skuggunum eins og þýska skáldið Goethe, sem skrifaði um reynslu sína af litum úti í náttúrunni á mismunandi tíma dagsins árin 1790–1832. Ásgrímur túlkar fyrirmyndina gagntekinn af þessum malerísku þáttum ljóss og lita. Sindrandi blá augun horfa með gagnrýnum hætti á aldursmerkin færast yfir, svört rák við augabrún segir sína sögu. Augnaráðið fylgir áhorfandanum löngu eftir að hann yfirgefur salinn og tilfinningin um að hafa náð augnsambandi og tengst listamanninum varir drjúga stund. Engu er líkara en augun, þessi spegill sálarinnar, tjái rósemi þess sem veit að allt er breytingum háð og tekur því hlutunum eins og þeir eru. Með svipuðu móti og Guðrún í þjóðsögunni Djákninn frá Myrká er hún áttar sig á að maðurinn sem situr hestinn með henni er draugur, og svarar spurningu hans: „Sé ég það sem er.“

Listamaðurinn horfir athugulum augum á sjálfan sig 73 ára gamlan, rautt nefið, há kinnbein og dökkar hnyklaðar augabrýrnar. Hér er einhver galskapur á ferð, augun starandi og sjáöldrin skroppin saman. Svipurinn sterkur og ekki óáþekkur þeim sem glottandi tröllin bera í sumum verkum listamannsins. Þau steinrenna ef sólarljósið nær að skína á þau, en hvað er að óttast? Báðir þeir listamenn sem Ásgrímur dáði hvað mest, Rembrandt og Vincent van Gogh, notuðu sjálfsmyndina sem tjáningu lita, ljóss og skugga og jafnvel leið til dýpri sjálfsskilnings og sjálfsagt hefur Ásgrímur verið meðvitaður um þýðingu slíkrar iðju, rétt eins og þeir sem nú til dags taka markvisst myndir af sjálfum sér, „selfie“.

Rakel Pétursdóttir

Mynd sýnir skúlptúr úr gifsi eftir Nínu Sæmundson sem heitir Rökkur. Skúlptúrinn sýnir nakta konu sem krýpur.

6.11.2015 — 17.1.2016

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17