Taugafold VII
Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter
26.5.2017 — 22.10.2017

26.5.2017 — 22.10.2017
Sýningarstjóri
Birta Guðjónsdóttir
Textaskrif
Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter, Birta Guðjónsdóttir og Alanna Heiss
Þýðandi
Birta Guðjónsdóttir
Framleiðandi verkefna Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter
Lilja Hrönn Baldursdóttir
Verkstjóri á vinnustofu Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter
Ragnheiður Káradóttir
Uppsetning sýningar
Baldur Geir Bragason, Geirfinnur Jónsson, Hrafnhildur Guðmundsdóttir og Þröstur Valgarðsson
Í samvinnu með

Hrafnhildur Arnardóttir (f. 1969), einnig þekkt sem Shoplifter, er íslenskur myndlistarmaður sem búsett er í New York. Á undanförnum 15 árum hefur hún á umfangsmikinn hátt kannað notkun og táknrænt eðli hárs, og sjónræna og listræna möguleika þessarar líkamlegu afurðar. Í verkum sínum fæst hún við sögu þráhyggju mannsins gagnvart hári og hvernig má upplifa hár sem birtingarmynd sköpunar í nútíma menningu, sem tekst á við hugmyndir á mörkum þráhyggju eða blætis. List hennar hverfist að mestu um skúlptúra, staðbundnar innsetningar og veggverk, sem fjalla jafnan um hégóma, sjálfsmynd, tísku, fegurð og goðsagnir í almannavitundinni. Hrafnhildur sækir áhrif frá dægurmenningu og fjöldaframleiðslu, auk alþýðulistar, naívisma og handverks, sem hefur mikil áhrif á sköpun hennar.
Fínlegur húmor gegnir stóru hlutverki í list Hrafnhildar og endurspeglast vel í notkun hennar á miklu magni marglits gervihárs, hárlenginga sem hún hnýtir, flækir og fléttar með hinu fallega og gróteska, og teflir saman upplifun á fjöldaframleiddum munum andspænis þeim einstöku. Hún hefur unnið með listamönnum frá öllum heimshornum, þar á meðal íslensku tónlistarkonunni Björk en fyrir umslag plötu hennar Medúlla árið 2004 skapaði Hrafnhildur „hár-hjálm“. Árið 2008 starfaði Hrafnhildur með listahópnum a.v.a.f að verki fyrir framhlið MoMA; Samtímalistasafnsins í New York. Meðal nýjustu verka hennar er röð viðamikilla innsetninga, sem ber heitið Nervescape og hún hefur unnið sérstaklega fyrir stórar stofnanir, s.s. Nervescape IV á Norræna tvíæringnum í samtímamyndlist – Momentum 8, í Moss, Noregi árið 2015, Nervescape V , í Samtímalistasafni Queensland í Brisbane, Ástralíu árið 2016 og Nervescape VI í Fílharmóníunni í Los Angeles, Bandaríkjunum fyrr á árinu árið 2017.
Mynd: Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter, Nervescape VII , 2017. Innsetning í Listasafni Íslands.
