Þetta er mjög stór tala (Commerzbau)
Hildigunnur Birgisdóttir
22.2.2025 — 7.9.2025
Listasafn Íslands kynnir með ánægju hina rómuðu sýningu Hildigunnar Birgisdóttur, Þetta er mjög stór tala — Commerzbau, sem var framlag Íslands til tvíæringsins í Feneyjum árið 2024. Þessi innsetning með skúlptúrum verður nú unnin áfram fyrir Listasafn Íslands, í samræmi við húsakynni safnsins við Tjörnina í miðborg Reykjavíkur.
Sýningarstjóri var Dan Byers, umsjónarmaður nútíma- og samtímalistar hjá Williams College Museum of Art í Massachusetts. Myndlistarmiðstöð hefur umsjón með íslenska skálanum fyrir hönd Menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
Sýningin ögraði á gáskafullan hátt fyrirfram gefnum hugmyndum um fegurð, virði og notagildi í samhengi við þennan alþjóðlega listviðburð. Hildigunnur er kunn fyrir að gefa hinu smáa gaum í listsköpun sinni og varpa gagnrýnu ljósi á hnattræn framleiðslu- og dreifingarkerfi, sem og hið undarlega lífshlaup varningsins sem þessi kerfi skapa. Í verkum sínum dregur hún athyglina að litlum, einnota hlutum sem gjarnan eru fjöldaframleiddir fylgifiskar neyslumenningarinnar: umbúðum, verðmiðum, merkingum og útstillingareiningum. Hún fær þessum hlutum nýtt hlutverk en gildi þeirra og merking gjörbreytast þegar komið er út fyrir hið upprunalega samhengi þeirra.
Heiti íslenska skálans sprettur af hugtakinu „Merzbau“, úr smiðju þýska dada-listamannsins Kurt Schwitters sem skapaði innsetningar í rými úr fundnum efnivið og hlutum. Schwitters hóf að nota hugtakið „Merz“ eftir að hafa í einu verka sinna nýtt rifrildi úr dagblaði með seinni helmingi orðsins „Commerz“. Hildigunnur endurinnleiðir hér fyrri hluta orðsins, „Com“, og byggir sitt eigið „Commerzbau“ úr fjöldaframleiddum hlutum og úrgangi úr heimi verslunar og viðskipta, en innsetningin er sérsniðin að sýningarrýminu. Hildigunnur segir: „Ég held að listsköpun mín mótist af því að hafa alist upp á lítilli eyju í Atlantshafinu, þar sem orðið hafa gríðarlegar breytingar með örfáum kynslóðum. Kapítalisminn birtist hér í raun á einni nóttu, andstætt við hægfara þróun hans í öðrum heimshlutum. Þar sem við erum svo agnarsmátt samfélag og kapítalisminn kom hingað svo skyndilega er þjóðin hin fullkomna ræktunarskál til að skoða þetta kerfi í smáatriðum, þessa neysluhyggju, kapítalið og verðmætin. Sumir þættir þessara kerfa virka í raun ekki í svo litlu samfélagi og ákveðnar hliðar kapítalismans eru einfaldlega svo nýjar að þessi „nýja“ alþjóðlega neyslumenning er í hróplegu ósamræmi við fyrri lifnaðarhætti okkar.”
Salur
3
22.2.2025 — 7.9.2025
Listamaður
Hildigunnur Birgisdóttir
Sýningarstjóri
Dan Byers
Ljósmynd
Hildigunnur Birgisdóttir
Very Large Number, 2023
ljósmynd: Vigfús Birgisson